Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fiskeldi samræmist ekki áformum við Dysnes

24.02.2015 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekkert samráð var haft við hafnaryfirvöld á Akureyri eða sveitastjórn Hörgársveitar við gerð matsáætlunar fyrir laxeldi við Dysnes í Eyjafirði. Staðsetning eldiskvía stangast á við áform um stórskipahöfn við Dysnes.

Í síðustu viku kynnti Norðanlax tillögu að matsáætlun fyrir 8000 tonna laxeldi í Eyjafirði. Norðanlax er dótturfélag Fjarðalax, sem starfrækir laxendi á Vestfjörðum. Tillagan gerir ráð fyrir eldissvæði út af Bakkaeyri og Dysnesi við vestanverðan Eyjafjörð. Svæðið tilheyrir Hörgársveit og Jón Þór Benediktsson, formaður skipulagsnefndar sveitarfélagsins, segir ekki gert ráð fyrir fiskeldiskvíum við Dysnes. „Við höfum verið markvisst að vinna að því að koma upp hafnsækinni starfsemi við Dysnes. Þetta kannski samræmist því ekki alveg."

Jón segir þetta alls ekki þýða að sveitarfélagið sé á móti fiskeldi. Því mætti finna stað berist um það erindi. Norðanlax hafi hinsvegar ekkert samráð haft við undirbúning verkefnisins. „Manni finnst það dálítið sérstakt að við skulum nánast frétta það í fjölmiðlum að það standi ti lað setja upp stórt fiskeldi út af Dysnesi."

Jón Örn Pálsson, verkefnisstjóri við matsáætlunina, segir áformin hafa verið kynnt Skipulagsstofnun og þar hafi engar athugasemdir verið gerðar við hugmyndi um eldiskvíar við Dysnes. En Jón Þór segir skipulagsvaldið hjá sveitarfélaginu og þangað hefði átt að leita strax.

„Ég endurtek það að við erum síður en svo á móti fiskeldi og atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu og erum alveg til í að vinna með þeim í að finna staðsetningu. En það hefði verið réttara að byrja á því að tala við skipulagsyfirvaldið áður en þeir fara að kynna matsskýrsluna."