Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Finnst þeir ekki búa lengur í íbúðabyggð

04.07.2013 - 14:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúar í miðbæ Reykjavíkur hafa áhyggjur af mikilli fjölgun gistirýma í miðborginni. Sverrir Þ. Sverrisson, formaður Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur, segir íbúa upplifa sig á gistihúsasvæði en ekki í íbúðabyggð eins og áður.

Sverrir segir hluta miðborgarinnar nánast undirlagðan af gistiheimilum. Fjöldi seldra húsa fari undir slíkan rekstur. „Það hefur fjölgað mjög mikið gistiheimilum og gististöðum í miðborginni á undanförum árum.“ Hann segir íbúana alls ekki á móti ferðamönnum en leggur áherslu á að hugað sé að heildarmyndinni. „Það þarf náttúrlega að huga að íbúunum í þessu samhengi líka svo það fari saman að íbúum líði vel og að taka á móti ferðamönnum.“

Sverrir segir að eins og ferðamanna sé háttur komi þeir oft seint heim á kvöldin og fari út snemma á morgnanna. Mynstrið sé ólíkt hinu daglega lífi. „Fjölgun á gistiheimilum og gististöðum breytir umhverfi íbúanna sem er hin hefðbundna íbúabyggð í það að verða gistiheimilasvæði. Íbúarnir sem búa á þessu svæði finna fyrir þessari breytingu og upplifa sig ekki inn í íbúðabyggð eins og áður.“

Á sama tíma segir hann það líka geta haft áhrif á áhuga ferðamanna. „Það er ekki spennandi ef þetta eru bara hótel og gististaðir, það held ég að sé ekki áhugavert í sjálfu sér ef það er eingöngu þannig.“