Finnst réttast að biðja huldufólkið um leyfi

09.07.2016 - 17:52
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurlína Erla Magnúsdóttir
Boranir eftir köldu vatni hafa gengið illa í Hegranesi í Skagafirði. Bóndi á svæðinu segir að honum finnist ekki vitlaust að velta fyrir sér hvort endurteknar bilanir á bornum megi rekja til þess að ekki hafi verið beðið um leyfi fyrir framkvæmdunum hjá huldufólkinu. „Þeir þurfa bara að biðja um leyfi fyrir framkvæmdunum,“ segir Birgir Þórðarson, bóndi á Ríp.

„Það er talið að hér í Herganesi sé ein mesta huldubyggð landsins,“  segir Birgir og bendir á að boranirnar séu of nálægt kirkjugarðinum. Kirkjugarðurinn sé margra alda gamall og engin leið að vita hvar eldri garðar voru, það hafi ekki verið kortlagt. Til dæmis hafi verið grafið fyrir hitaveitu röri í nágrenni kirkjugarðsins fyrir stuttu og þá hafi fundist fornleifar. „Þeir þurfa bara að færa sig aðeins frá klöppunum og frá kirkjugarðum.“

Birgir telur að hugsanleg lausn á vandamálunum borverkamanna sé að biðja um leyfi, með því að tilkynna framkvæmdirnar og óska eftir leyfi hjá huldufólkinu. Í Morgunblaðinu í dag segir að bor hjá fyrirtæki sem fengið var til að bora eftir köldu vatni hafi ítrekað bilað. Til dæmis hafi verið truflanir í rofabúnaði og glussabúnaður bilaði á bornum. Síðast á fimmtudag brotnuðu borstangir og festust. „Þeir eru búnir að vera hérna í hálfan mánuð og það hefur hver bilunin rekið aðra hjá þeim,“ segir Birgir.

Trú á álfa og huldufólk hefur verið viðloðandi við Hegranes í Skagafirði. Árið 1978 hætti Vegagerðin við að sprengja blindhæð í Tröllaskarði eftir að illa gekk að semja við huldufólk. 

 

Katrín Lilja Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV