Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Finnst heimakjöt betra en kjöt úr hraðslátrun

19.11.2018 - 18:56
Sauðfjárbændur vilja margir fá að setja upp örsláturhús og selja heimaslátrað í stað þess að senda skepnur og skrokka langar leiðir. Bóndi í Breiðdal segir að kjöt sem fari með hraði í gegnum sláturhús sé ekki sú vara sem hún vilji helst selja.

Á Gilsárstekk í Breiðdal er lambakjöt nýtt í matvælaframleiðslu undir vörumerkinu Breiðdalsbiti. Þar er Guðný Harðardóttir að hantera steikur en þetta kjöt má reyndar hvorki selja né gefa frá býlinu. „Ég er að úrbeina kjöt sem er heimaslátrað sem er leyfilegt en ég verð að borða það sjálf. Það er ekki leyfilegt að selja það. Mér finnst það langbesta kjötið,“ segir Guðný.

Gripir sem ætlaðir eru í framleiðsluna eru sendir um langan veg til slátrunar á Húsavík. Guðný, eins og margir aðrir bændur, vill fá að setja upp örsláturhús og spara flutningskostað. „Og þegar við erum að einbeita okkur að því að vera umhverfisvæn og viljum halda því á lofti að við séum umhverfisvæn, að við í rauninni séum svo að eyðileggja kolefnissporið með þessu, að senda bæði lifandi gripina norður og svo fáum við kjötið aftur sent heim til að vinna úr því,“ segir Guðný.

Í sláturhúsum sé hraðinn mikill og kjötið þaðan nánast önnur vara en kjöt af gripum sem slátrað sé heima. „Aflífunaraðferðin í sláturhúsunum er ekki sú sama og er notuð hér heima þannig að þau blóðrenna ekki eins og við gerum heima fyrir. Ásamt því að hraðinn er orðinn svo mikill að skrokkurinn er rétt kólnaður þegar hann fer í frysti. Þar af leiðandi meyrnar kjötið ekki eins og við leyfum því að gera.“

Örsláturhús heima á bæjum myndu kalla á lausnir í úrgangsmálum og brenna þyrfti áhættuvefi sem gætu borið smit. „Þetta er eitthvað sem til dæmis sveitarfélög hér á Austurlandi gætu tekið sig saman um. Ég sé fyrir mér að einn brennsluofn á Austurlandi gæti leyst okkar vanda,“ segir Guðný.

MATÍS hefur lagt til hvernig verklag og kröfur ættu að vera í örsláturhúsum bænda. Til að vekja athygli á málinu setti MATÍS upp slíka heimaslátrun í Skagafirði og var kjötið selt á bændamarkaði á Hofsósi í lok september. Matvælastofnun hefur kært það til lögreglu.