Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Finnst áhrif sín á íslenska tónlist vanmetin

Mynd: Santiago Felipe / Santiago Felipe

Finnst áhrif sín á íslenska tónlist vanmetin

09.04.2018 - 17:10

Höfundar

Björk Guðmundsdóttir segir að áhrif hennar á íslenska tónlist hefðu verið betur metin ef hún væri karlmaður. Hún segist lengst af ekki hafa kunnað við það að stæra sig eða kvarta, en henni finnst nóg komið. „Ég roðna þegar ég segi þetta, en ég ætla að leyfa mér að gera það.“

Síðustu ár hefur Björk vakið athygli á kynjamisrétti í tónlistarheiminum. Í löngu viðtali við vefritið Pitchfork árið 2015 ræddi hún til að mynda um ósýnilegt framlag kvenna. Fyrir tveimur árum birti hún opið bréf á Facebook-síðu sinni þar sem hún fór hörðum orðum um fjölmiðla og sagðist ekki lengur geta hunsað misréttið sem kvenkyns tónlistarmenn verða fyrir í tónlistarumfjöllun.

Í nýlegu viðtali í Rokklandi á Rás 2 segist hún hafa síðustu ár reynt að læra að ræða um alla þá vinnu sem hún leggur í tónlist sína. „Ég hef ekki verið í montkasti og talað um allt sem ég gerði sjálf, en ég er að reyna að læra það. Margir af mínum nánustu ættingjum vita ekki að ég hef alltaf gert mínar útsetningar sjálf,“ segir hún og bætir við að síðan 1999 hafi hún klippt öll sín lög sjálf.

Hún segir að hún hafi vakið gremju hjá ungum konum sem hafa leitað til hennar, því hún hafi alltaf látið eins og þetta væri ekkert mál. „Kynslóð mömmu minnar var alltaf bálreið og neikvæð. Sem mér fannst gott upp að vissu marki, en mér finnst það líka eyðileggja fyrir þeim,“ segir hún. „Þannig að mín kynslóð var svolítið svona „ókei, látum eins og þetta sé ekkert mál og hættum að væla.““ Hún hafi varið síðustu fjórum árum í að læra að „væla“ aftur á uppbyggilegan hátt, fyrir komandi kynslóðir kvenna.

Björk segir að hún hafi alltaf fengið hrós fyrir sönginn. Það sama hafi ekki átt við um vinnuna sem liggur að baki tónsmíðunum. „Mér finnst ég ekki hafa fengið kredit fyrir að hafa verið pródúsent á mínum eigin plötum.“

Hún nefnir fjórðu breiðskífu sína Vespertine sem dæmi. Hugmyndin að margbrotnum hljóðheimi plötunnar hafi verið hennar og hún hafi sett saman nær alla plötuna sjálf á fartölvu. „Mér finnst þetta hafa áhrif á íslenska tónlist eftir það, hvernig ég blandaði saman klassískum hljóðheimi og poppi. Mér finnst ég ekki alveg hafa fengið kredit fyrir það og aðrir hafi eignað sér þennan hljóðheim. Ef ég væri strákur, þá held ég að ég hefði fengið kredit fyrir það. Það er mín kenning og það er mitt innlegg í kvenréttindabaráttu á Íslandi. Ég roðna þegar ég segi þetta, en ég ætla að leyfa mér að gera það.“

Björk kemur fram á tónleikum í Háskólabíói í kvöld. Hlusta má á viðtal Óla Palla við hana í fullri lengd í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Björk heldur tónleika í Háskólabíói í apríl

Tónlist

Tónleikaröð Bjarkar mest spennandi á nýju ári

Popptónlist

Hefur spilað sirka 15.000 tónleika um ævina

Tónlist

„Við sáum hvort annað“