Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Finnst að borgin ætti að verja verkefnið

17.10.2018 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Arkitektinn, sem hafði eftirlit með hönnun braggans í Nauthólsvík, telur að ekki hafi verið gerð mistök við framkvæmdina. Verkefnið hafi verið vandasamt og tímafrekt. Reykjavíkurborg beri ábyrgðina, ekki verktakar. Kostnaður við braggaverkefnið hefur farið um 250 milljónir fram úr áætlun.

Flókið og tímafrekt verkefni

Margrét Leifsdóttir, arkitekt hjá Arkibúllunni, var gestur Morgunútvarpsins á Rás tvö í morgun. Fram kom í DV í gær að það tók hana og samstarfsfólk hennar um 1300 klukkustundir að hanna braggann. Margrét segir enga tíma oftalda af Arkibúllunni. Arkitektastofan var fengin til verksins í desember 2015. „Það þarf að teikna allar þessar byggingar - sem að eru brunarúst, sem er skáli, sem er braggi, sem eru viðbyggingar og tengibyggingar innan þessara bygginga - eins og að um nýbyggingar sé að ræða,“ segir Margrét. Það sé flóknara en að teikna nýtt hús frá grunni. „Hvað þá þegar að við erum að tala um minjar sem verið er að passa upp á, það er flóknara heldur en að byggja nýbyggingu. Og það hefur örugglega verið ódýrara að rífa þetta allt saman og byggja nýtt.“

Hún segir af og frá að rukkað hafi verið fyrir óeðlilega marga tíma vegna verkefnisins. „Verkefnið dregst á langinn, og það er ekkert óeðlilegt við það, það er enginn að hlaupa í burtu með einhverja peninga, þetta eru bara sannarlega unnir tímar.“  

Margrét bendir á að kostnaðaráætlun, sem gerði ráð fyrir að verkefnið kostaði um 160 milljónir, hafi verið gerð á frumstigi málsins, áður en teikningar lágu fyrir.

Umræðan óvægin í garð starfsfólks

Hún segir umfjöllun og umræðu um málið hafa verið mjög óvægna í garð verktaka. „Og ég held því fram að það hafi ekki verið beint gerð mistök, það er bara vandað til verka og það er ótrúlega óréttlátt hvernig starfsmenn, iðnaðarmenn sem hafa komið að þessu verkefni, hafa hreinlega verið sakaðir um að það hafi eitthvað saknæmt átt sér stað, þegar allir hafa unnið að þessu verkefni af algjörum heiðarleika og bara í takt við það sem menn voru beðnir um,“ segir Margrét. Hún saknar þess að þeir sem beri ábyrgð stígi fram og verji verkefnið. „Að enginn hjá Reykjavíkurborg, sem hefur með þetta verkefni að gera, hafi staðið upp fyrir því og gert grein fyrir því hversu mikilvægt þetta er, að gera upp þessar minjar og hversu mikilvægt það er menningarsögulega fyrir okkur að eiga þær.“

Hún segir ljóst að Reykjavíkurborg beri ábyrgðina. Aðspurð segir hún að stjórnmálamenn virðist vilja fría sig ábyrgð. „Að sjálfsögðu er þetta pólitísk ábyrgð. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru allir í erfiðri stöðu og harkan er alveg rosaleg í þessari umræðu en ég sakna þess samt að fólk standi upp og hafi sjálfstraust til þess að standa með framkvæmdinni.“

Hún fagnar úttekt innri endurskoðunar á framkvæmdinni.