Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Finnar saka Rússa um að eiga við GPS-kerfið

12.11.2018 - 04:07
Erlent · Finnland · NATO · Noregur · Rússland · Evrópa
epa07147893 US Admiral James G. Foggo (R), Commander of the NATO Trident Juncture (TRJE18) exercise, attends a ceremony at Vaernes airport in Stjordal, Norway, 07 November 2018.  EPA-EFE/OLE MARTIN WOLD  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX
Finnar saka Rússa um að hafa átt við staðsetningakerfi landsins um það leyti sem heræfingar Atlantshafsbandalagsins, NATO, fóru fram í Noregi á dögunum. Bæði Finnar og Norðmenn misstu GPS samband á meðan æfingunum stóð.

Juha Sipila, forsætisráðherra Finnlands, segir í viðtali við finnska ríkisútvarpið Yle að stjórnvöldum í Moskvu sé líklega um að kenna. Hann segir að tæknilega sé frekar einfalt að trufla útvarpsbylgjur, og Rússar hafi mögulega átt þátt í því. Þetta verði rannsakað og brugðist við niðurstöðunum. Hann segir aðgerðina hafa ógnað flugöryggi almennra borgara. Sipila, sem er reyndur flugmaður, segir að aðgerðin verið rannsökuð sem árás á finnska lofthelgi.

GPS sambandið rofnaði í Lapplandi og norðanverðum Noregi, nærri landamærunum að Rússlandi. Deutsche Welle hefur eftir norska flugfélaginu Widerøe að flugmenn þess hafi fundið fyrir truflununum. Flugmenn um borð í þeim vélum hafi þó önnur ráð ef GPS bregst.

Ákvörðun Finna, sem ekki eiga aðild að NATO, um að taka þátt í heræfingunni vakti reiði rússneskra stjórnvalda. Æfingin fór að mestu leyti fram í Noregi, en einnig að hluta í Finnlandi og Svíþjóð, hér á Íslandi og á Eystrasalti. Um 50 þúsund manns tóku þátt í æfingunum.