Finnar mótmæla leiðtogafundi í Helsinki

15.07.2018 - 12:59
Mynd: EPA-EFE / Compic
Á þriðja þúsund manns söfnuðust saman í dag í Helsinki í Finnlandi og mótmæltu fundi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Vladimirs Putins, forseta Rússlands. Leiðtogafundur þeirra verður í borginni á morgun.

Sumir mótmælendanna báru spjöld þar sem ritskoðun fjölmiðla var fordæmd. Á öðrum stóð að leiðtogarnir brytu gegn mannréttindum. Á einu skilti var þess krafist að börn ólöglegra innflytjenda í Bandaríkjunum yrðu frelsuð og Trump stungið inn í staðinn. Á öðru var þess krafist að Putin yrði fangelsaður. Þá var þess krafist að úkraínski kvikmyndagerðarmaðurinn Oleg Sentsov yrði látinn laus. Hann hefur verið í mótmælasvelti í rússnesku fangelsi í tvo mánuði.

Ungliðahreyfing finnska stjórnmálaflokksins Sannra Finna félagsskapurinn Hermenn Óðins efndu einnig til samkomu í Helsinki í dag þar sem komu Donalds Trumps var fagnað. Um það bil fimmtíu til sjötíu mættu á hana.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi