Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Finnar ætla að efla varnir

20.02.2017 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd: YLE
Finnska stjórnin hefur samþykkt nýja varnarmálaáætlun fyrir landið. Gert er ráð fyrir að varnir verði efldar og meira fé varið til landvarna. Stjórnin kynnti nýju áætlunina og og Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra, sagði að aukningin væri hófleg. Komi til styrjaldarástands er gert ráð fyrir að 280 þúsund manns verði í finnska heraflanum í stað 230 þúsunda eins og núverandi áætlun segir til um.

Niinistö sagði að Finnar yrðu að bregðast við breyttum ógnunum. Þeir yrðu að efla landvarnir og nýja áætlunin gerði ráð fyrir því.

Finnar ætla að endurnýja orrustuþotur sínar. Ekki var samt tilkynnt hvaða vélar ættu að koma í stað F-18 Hornet vélanna sem Finnar hafa notað síðan 1995. Þá stendur einnig til að efla flotann.

Aukin spenna við Eystrasaltið

Finnska stjórnin segir í skýrslu sem liggur til grundvallar nýju áformunum að spenna hafi aukist eftir að Rússar hernámu Krímskaga, þetta gildi ekki síst í og við Eystrasaltið. Á fréttamannafundinum þegar skýrslan var kynnt sögðu ráðherrar þó að þeir teldu ekki að Finnlandi stafaði bein hætta af Rússum. Þeir vilja samt auka samstarf um landvarnir bæði við Atlandshafsbandalagið og norræn ríki.

Niinistö vildi ekki svara beint hvort Finnar reiddu sig á hernaðarhjálp frá Svíum. Hann sagði að Finnar væru búnir undir að verja sig sjálfir en stöðugt væri unnið að því að gera það auðveldara að fá hjálp utan frá. Það snerist mest um samvinnu við Svía. Herflugvélar ríkjanna æfðu saman vikulega á norðurslóðum. 

Finnar verja um einu komma þremur prósentum vergrar landsframleiðslu til varnarmála, en það hlutfall hækkar núna.

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV