Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Finnafjarðarverkefnið brátt í nýrri stöðu

26.11.2018 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Undirbúningur stórskipahafnar í Finnafirði fær nýja stöðu þegar tvö félög um starfsemina verða stofnuð á næstu vikum að mati sveitarstjóra Langanesbyggðar. Þá verði hætt að vinna með hugmynd en þess í stað unnið með kerfisbundnum hætti að formlegu verkefni.

Það eru uppi gríðarmikil áform um alþjóðlega umskipunarhöfn í Finnafirði með fyrirtækjum í hafnsækinni starfsemi. Landrými þar leyfir allt að 1200 hektara athafnasvæði og 6 kílómetra langa viðlegukanta samtals.

Tvö hlutafélög stofnuð fyrir áramót

Það eru þýska félagið Bremenport, sveitarfélögin Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð, verkfærðistofan Efla og íslenska ríkið, sem að verkefninu standa. Eftir margra ára rannsóknir og undirbúning, hillir nú undir formlega stofnun tveggja hlutafélaga um verkefnið og samstarf við landeigendur. „Það er stefnt að því, og hefur verið stefnt að því, að ljúka því á þessu ári. Og ég sé svo sem ekkert sem ætti að koma í veg fyrir það,“ segir Elías Pétursson, sveitarstóri Langanesbyggðar.

„Þá verður verkefnið komið með kennitölu“

Þetta eru rekstrarfélag hafnarinnar, eða hafnarsamlag, og þróunarfélag um ráðgjöf við tækni- og umhverfismál, samningagerð og markaðssetningu. Og Elías segir að við formlega stofnun félaganna fái verkefnið alveg nýja stöðu. „Ég myndi halda því fram að þá væri verkefnið komið með kennitölu. Það er þá orðið formlegt verkefni. Þetta er hætt að vera hugmynd og orðið verkefnið sem menn með kerfisbundnum hætti eru farnir að vinna að.“

Ríkisstyrkur nýttur til kaupa á sérfræðiþjónustu

Finnafjarðarverkefnið fékk nýlega 18 milljóna króna styrk frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Það fjármagn segir Elías nýtast til kaupa á sérfræðiþjónustu sem sé afar nauðsynleg í svo viðamiklu verkefni. „Verkefni sem á eftir að lifa okkur, ef af því verður. Og þar af leiðandi þarf texti og annað að vera þannig úr garði gerður að þeir sem á eftir okkur koma verði sammála um hvað hann þýðir. Þannig að þetta er bara mjög flókið og til þess þarf sérfræðinga okkur til aðstoðar.“

Þróun verkefnisins og uppbygging taki áratugi

Allir sem að þessu verkefni koma líta á það sem langtímaverkefni. Þróun þess og uppbygging taki áratugi. Og því segir Elías að enn muni nokkur ár líða þar til áhrifa þess fari að gæta svo nokkru nemi. „En ég treysti mér ekkert til að segja hvenær við værum farin að sjá hér eitthvað að gerast.“