Finna þarf nýjar leiðir til að brauðfæða fólk

17.10.2018 - 23:13
Spain's Queen Letizia delivers her speech in the plenary hall of the FAO, United Nations Food and Agriculture Organization, headquarters on the occasion of the World Food Day summit, in Rome, Tuesday, Oct. 16, 2018. (AP Photo/Gregorio Borgia)
 Mynd: AP
Alltof lítið er gert til að mæta hraðri íbúafjölgun og draga úr barnadauða í sunnanverðri Afríku, að mati Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir aukna velmegun víða um heim verði þetta svæði og fjölmörg önnur útundan vegna græðgi, eigingirni og spillingar. 

Rúmur sjö og hálfur milljarður manna býr nú á jörðinni og fjölgar um 2,2 milljarða á næstu þrjátíu árum, gangi ný mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna eftir. Langmest er fjölgunin í löndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar, þar sem neyðin er mest, bæði fátækt og vannæring. 

155 milljón börn búa við vannæringu og gætu þurft að lifa með afleiðingum hennar alla lífsleiðina.

Þarf endurskipulagningu á fæðufyrirkomulagi heimsins

Það liggur því í augum uppi að finna þarf nýjar leiðir til að brauðfæða allt þetta fólk, sér í lagi ef fjölgunin verður þetta hröð á næstu árum. Tilraunir með fiskeldi hófust þar fyrir nokkrum áratugum, eins og hér á landi, og líkt og hér heima eru áform um að auka það til muna. Sunnan Sahara hefur fiskneysla minnkað síðustu ár, matarræktun er að eflast en það þarf svo miklu meira að koma til, að mati Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

„Við verðum að endurskipuleggja fæðufyrirkomulag heimsins," segir Letizia Ortiz, Spánardrottning og sendiherra stofnunarinnar. „Það er tröllaukið verk og allir, á öllum sviðum mannfélagsins verða að leggja þar hönd á plóg."

Þróunin virðist vera í þveröfuga átt. Hungur veldur helmingi barnadauða í heiminum og þrátt fyrir aukna velmegun og tækniþekkingu hefur ekki tekist að draga úr fátækt og vannæringu.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Auður Aðalsteinsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi