Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Finna nær ekkert fyrir skjálftunum

20.09.2014 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Mikill fjöldi vísindamanna er við gosstöðvarnar í Holuhrauni í dag. Landvörður í Öskju segir nauðsynlegt að vera alltaf með gasgrímu og gasmæli við höndina. Hann hefur ekki fundið fyrir einum einasta skjálfta úr Bárðarbungu, þó einungis 60 kílómetrar séu þaðan að Dreka.

Töluverð breyting hefur orðið á starfshögum Stefáns Frímanns Jökulssonar, landvarðar í Öskju, síðan eldgosið í Holuhrauni hófst. Hann segir allar líkur á að gosið auki ferðamannastrauminn inn á svæðið. 

„Það er náttúrulega mjög takmörkuð umferð inn á svæðið núna, þetta eru aðallega vísindamenn og fólk frá fjölmiðlunum sem eru að koma inn á svæðið," segir Stefán. „Töluverður fjöldi erlendra fjölmiðla, ljósmyndara og heimildarmyndargerðarmanna hefur líka komið."

Þó að Dreki sé í einungis 60 kílómetra fjarlægð frá Bárðarbungu, hefur Stefán aldrei fundið fyrir skjálfta. 

„Hér finnur maður rosalega lítið fyrir skjálftunum. Ég sjálfur hef ekki fundið fyrir einum einasta, og það eru mismunandi kenningar af hverju það er," segir hann. „Einhversstaðar heyrði ég að kvikuhólfið undir öskjunni sjálfri væri að dempa eða draga eitthvað úr þessum skjálftum."

Eins og gefur að skilja er mikil gosmengun á svæðinu og þurfa því allir að vera vopnaðir gasgrímum. 

„Við erum alltaf með hana við hendina sem og gasmæla. En svo er maður bara duglegur að fylgjast með vindáttinni og hvert mengunin er að berast. Það er gott að geta reitt sig á mælingar vísindamannanna sem eru framkvæmdar hérna hvern einasta dag til þess að vera svona nokkuð öruggur."

Blíðskaparveður hefur verið á svæðinu í dag, logn og milt og nær heiðskírt. Mikill fjöldi vísindamanna er við störf, frá Jarðvísindastofnun, Veðurstofunni, Ísor og Orkuveitu Reykjavíkur. 

„Þetta á örugglega eftir að vera efniviður í nokkurra ára rannsóknir, þau gögn sem hefur verið safnað hérna síðustu vikur," segir Stefán. 

[email protected]