Fimmtán ára innsýn í heillandi heim

Fimmtán ára innsýn í heillandi heim

21.03.2017 - 18:46

Höfundar

Við erum ekki nógu dugleg að kenna innflytjendum íslensku. Þetta segir kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Karl Helgason. Hann hefur fylgst með fjölskyldu í Reykjavík í fimmtán ár, eða frá því að hún flutti hingað frá Taílandi. Afraksturinn, heimildarmyndin 15 ár á Íslandi, verður frumsýnd í Bíó Paradís annað kvöld.

Praneet Khongchumchuen er vélvirki á díselverkstæðinu Framtaki, þar sem hann gerir við vélar úr skipum og bílum. Fyrir fimmtán árum tók hann tvær afdrifaríkar ákvarðanir. Önnur var sú að flytja með fjölskyldu sína frá Taílandi til Íslands. Hin var sú að leyfa kvikmyndagerðarmanni að fylgja fjölskyldunni eftir og skrásetja hvernig henni gengi að festa hér rætur.

„Hann spurði hvort hann mætti mynda sögu fjölskyldu minnar á Íslandi,“ segir Praanet. 

„Ég fékk leyfi til þess að koma til þeirra, og það var mjög athyglisvert að þau vissu ekkert af mér. Ég man aldrei eftir að þau hafi horft í kameru, ég var bara eins og einn af þeim,“ segir Jón Karl.

Íslenskukennslan er aðalvandamálið

Fjölskyldunni hefur vegnað vel á Íslandi. Eiginkona Praanets er kennari við nýbúadeild Álfhólsskóla og börnum þeirra hefur farnast vel í námi, en íslenskan hefur verið þeim ákveðinn fjötur um fót. 

„Það var kannski það sem kom mér mest á óvart, hvað okkur gengur enn illa að kenna útlendingum íslensku,„ segir Jón Karl. „Ég held að það sé aðalvandamálið. Og þess vegna einangrast þessir hópar, því við erum ekki nógu dugleg að kenna þeim íslensku.“

Viðhorf sveiflast eftir efnahag

Jón Karl hefur safnað öllum fréttum um innflytjendur frá aldamótum, og fléttar umræðuna um málefni aðfluttra inn í myndina. 

„Íslendingar eru hlynntir innflytjendum þegar vel gengur á Íslandi. Þegar verr gengur fjölgar þeim sem eru á móti innflytjendum. Þannig er það bara,“ segir hann.

Sérstök jól

Jón Karl hefur líka fylgt fjölskyldunni í sorg og gleði.

„Auðvitað var það dálítið sérstakt að heimsækja þau jólin 2004. Daginn eftir fór ég til þeirra þegar flóðin skullu á Taílandi. Svo var ég aftur jólin 2006 og 2011. Og það var merkisatburður því þá fengu yngsta dóttirin og sonurinn ríkisborgararétt.“

Langur og gjöfull tími

Praneet segir fjölskylduna hlakka til að sjá myndina á morgun, eftir allan þennan tíma.

„Þetta er búið að vera mjög langt ferli. Mér finnst skrýtið til þess að hugsa hvað börnin mín voru ung þarna í upphafi,“ segir hann.

Jón Karl sér ekki eftir tímanum sem hann hefur varið í gerð myndarinnar: 

„Taílenski heimurinn er mjög spennandi heimur. Ég er viss um að það eru ekki margir Íslendingar sem hafa upplifað þennan heim eins og ég í öll þessi ár, og hann er alveg frábær,“ segir Jón Karl Helgason.