Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fimm minkabændur hættu í haust

13.12.2018 - 05:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimm minkabændur hafa hætt loðdýrabúskap á síðustu sex vikum og líklegt er talið að fleiri bregði búi á næstu vikum enda standi reksturinn engan veginn undir sér. Frá þessu er greint í Bændablaðinu. Þar segir að nú séu einungis 13 loðdýrabú í rekstri á landinu, en þau hafi verið 240 þegar þau voru flest, á níunda áratug síðustu aldar.

Verð á minkaskinnum hefur verið með lægsta móti undanfarin ár en aldrei jafn lágt og á þessu ári segir í frétt Bændablaðsins. Helmingi minna fáist nú fyrir hvert skinn en það kostar að framleiða það. Haft er eftir Einari E. Einarssyni, bónda að Syðra-Skörðugili og formanni Sambands íslenskra loðdýrabænda, að tap hafi verið á íslenskri minkarækt undanfarin þrjú ár. Þetta haldi enginn út til lengdar og því hafi fimm hætt í haust og fleiri séu að velta því fyrir sér „hvort þeir eigi að þrauka áfram eða hætta."

Um 12 prósentustiga veiking krónunnar frá því í sumar hefur bætt stöðu minkabænda eilítið og í bréfi Einars til félaga sinna í SÍL segir hann vonandi að krónan eigi „eftir að lækka um nokkur stig í viðbót á komandi mánuðum." Þá segir hann í Bændablaðinu að komið sé „ákveðið útspil frá ríkisvaldinu," en það sé talsvert lægra en minkabændur lögðu til í samráði við Byggðastofnun.

Ýtrustu kröfur þeirra hljóðuðu upp á 200 milljóna stuðning á ári næstu þrjú árin, eða samtals 600 milljónir króna, þar sem helmingur færi beint til bænda og heilmingur til fóðurstöðva. Í fjárlögum nú er hins vegar aðeins gert ráð fyrir 30 milljóna tímabundnu framlagi til Byggðastofnunar vegna greinarinnar. Stjórn Byggðastofnunar hefur jafnframt samþykkt „að hefja vinnu við stofnun nýs lánaflokks [vegna loðdýraræktar, innsk. rúv] og að í fyrsta áfanga verði varið að lágmarki 100 milljónum til hans."