Fimm milljóna viðgerð endar í 100 milljóna framkvæmdum

27.02.2020 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd: Árborg
Viðgerð sem upphaflega átti að kosta fimm milljónir króna stefnir í að verða að hundrað milljónir króna viðhaldsverkefni á Ráðhúsi Árborgar. Bæjarfulltrúar vilja rannsókn á framkvæmdum.

Undir lok árs 2018 var ákveðið að verja fimm milljónum króna í að skipta um gólfdúk og ráðast í aðrar úrbætur á bókasafninu í húsnæði Ráðhúss Árborgar á Selfossi. Verkefnið hefur undið upp á sig og nú er kostnaður við framkvæmdir í Ráðhúsinu orðinn 65 milljónir króna. Sá kostnaður er vegna hönnunar, smíðavinnu, raflagna, vinnu við gólf, innréttingar og uppsetningu, húsgögn og búnaður svo eitthvað sé talið. Viðbúið er að enn eigi eftir að bætast við 40 milljóna króna útgjöld. Þá verður heildarkostnaður orðinn 105 milljónir í stað þeirra fimm milljóna sem lagt var upp með. Og verkefnið orðið mun viðameira en í fyrstu. 39 milljóna króna viðauki við fjárhagsáætlun var samþykktur í september en dugði ekki til vegna útgjalda síðasta árs. 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir óháðri úttekt um hvernig staðið hefði verið að ákvarðanatöku og framkvæmdum, og hvort að hún væri í samræmi við lög. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Áfram Árborgar sem eru í meirihluta lögðu þá til í staðinn að óháð úttekt færi fram á fjölda framkvæmda bæjarins síðustu ár.

Fréttablaðið fjallaði um málið í morgun. Þar er haft eftir formanni bæjarráðs að verkið hafi ekki verið boðið út þar sem það var talið innan útboðsreglna. Þá hafi ekki verið búið að ákveða hversu langt yrði farið í þessum áfanga við framkvæmdir.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi