Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fimm látnir og tugir slasaðir í slysum síðustu vikna

02.02.2020 - 18:52
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Fimm hafa látist, þar af fjögur undir þrítugu, og á annan tug hlotið alvarleg meiðsli í slysum sem rekja má til tíðarfarsins síðustu vikur. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur að meðaltali verið kölluð út annan hvern dag síðan um miðjan desember. Á einungis fimm vikum opnaði Rauði krossinn 22 fjöldahjálparstöðvar og yfir 2.000 björgunarsveitarmenn sinntu 320 útköllum.

Skelfilegar afleiðingar tíðarfarsins

Miskunnarlaus náttúran hefur heldur betur minnt á sig undanfarnar vikur. Fjölmörg slys hafa orðið, sum mjög alvarleg, og samgöngur hafa ýmist legið niðri eða raskast verulega. Þá er ótalið óvissustig vegna mögulegra eldgosa og smitsjúkdómafaraldra.

Á hálfum öðrum mánuði, frá 11. desember til 26. janúar, létust fimm í slysum sem rekja má til tíðarfarsins. Sá yngsti var 16 ára, þrjú voru liðlega tvítug og einn á fimmtugsaldri. Eignatjón vegna veðursins hleypur á hundruðum milljóna ef ekki milljörðum króna og þúsundir manna hafa orðið fyrir áföllum sem geta fylgt þeim ævina á enda. Ljóst er að viðbragðsaðilar, og almenningur í sumum tilvikum, hafa unnið hvert þrekvirkið á fætur öðru og líklega bjargað fjölda mannslífa.

Þurftu að nota kerti á sjúkrahúsinu

Veðurstofan gaf í fyrsta sinn út rauða viðvörun í aðdraganda óveðursins 10. desember. Hún gilti í tvo sólarhringa. Í átta daga var appelsínugul viðvörun í einhverjum landshlutum, frá 10. desember til 17. janúar, og gul viðvörun í tólf daga. Veðurviðvaranir voru í gildi í 22 daga en í 17 daga var engin viðvörun. 

Rafmagnsleysi varði lengst í 80 klukkutíma og kerfi Landsnets gaf sig í flestum landshlutum. Heilbrigðisstofnanir voru meira að segja án rafmagns. 

„Við vorum með kerti og rafmagnskerti. Svo kláruðust batteríin, svo kláruðust kertin,” Björk Magnúsdóttir, starfsmaður á Heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga, eftir óveðrið. 

Tjón á eignum og tilfinningalegur missir

Meira en 100 rafmagnsstaurar brotnuðu, nær 50 slár og jafn margir krossar. Landsnet áætlar að kostnaðurinn vegna tjónsins sé um 300 milljónir króna. Bilunin í kerfinu var langmest á Norðurlandi vestra, næstmest á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra og svo Vesturlandi. Einnig varð rafmagnslaust á Suður- og Austurlandi. Suðurnes og höfuðborgarsvæðið sluppu. 

Ljóst er að eignatjón er gífurlegt og enn er óvíst hvort og þá hvernig bændur geta sótt bætur til tryggingafélaga. Tjónið var einnig tilfinningalegt því að yfir 100 hross drápust í fannferginu og urðu bændur margir hverjir fyrir miklum missi.  

Slysahrina vegna óveðurs

 • Að kvöldi 11. desember varð banaslys í Sölvadal í Eyjafirði, þegar 16 ára piltur, Leif Magnús Grétarsson, féll í Núpá. Hann fannst eftir tveggja daga leit. 

„Það er mikil áreynsla á fólk að leita í þessum aðstæðum. Þú ferð ofan í ána og svo kemurðu upp og það frýs allt utan á þér.”

Ármann Ragnar Ægisson, vettvangsstjóri aðgerða björgunarsveita í Núpá. Um 300 manns tóku þátt í leitinni. 

 • Leit að Rimu Feliksasdóttur við Dyrhólaey og Andris Kalvans á Snæfellsnesi, sem hefur verið saknað síðan í lok desemberl, hefur ekki borið árangur. Síðast spurðist til Rimu á Þorláksmessu og Andris 30. desember. Leit hefur verið erfið vegna óveðurs.
   
 • 7. janúar fór ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland í vélsleðaferð að Langjökli með 39 ferðamenn í aftakaveðri. Björgun var erfið og fólkið komst ekki í skjól fyrr en næsta morgun. Nokkur börn voru með í för.

„Hann var alveg frosinn í gegn svo ég þurfti að faðma hann og halda honum þétt upp að mér.
Virgina Galvani frá Brasilíu, um yngri son sinn. 
 
„Við vorum í níu klukkutíma í snjónum. Ég hugsaði með mér: Guð minn góður, við eigum eftir að deyja hérna.” 
Antonio Galvani, eldri sonur Virginu.

 • Daginn eftir, 8. janúar, slitnuðu landfestar flutningaskips í Hafnarfjarðarhöfn. Björgun tókst við erfiðar aðstæður. 
   
 • 10. janúar fauk gámur af flutningabíl á Vesturlandsvegi og olli alvarlegu slysi. Um kvöldið valt rúta með hátt í fimmtíu læknanema innanborðs, skammt frá Blönduósi. Þrír slösuðust alvarlega.
   
 • Karlmaður á fimmtugsaldri lést 12. janúar í hörðum árekstri við snjóruðningstæki á Reykjanesbraut. Öllu flugi var aflýst í storminum og fólk sat fast, bæði í bílum á Reykjanesbraut og flugvélum á Keflavíkurflugvelli.
   
 • Óhugnanleg tíðindi bárust frá Vestfjörðum tveimur dögum síðar, að kvöldi 14. janúar, um tvö snjóflóð sem féllu ofan Flateyrar og fóru yfir varnargarða. Annað fór yfir einbýlishús þar sem mannbjörg varð, og hitt eyðilagði báta og mannvirki í höfninni. Þriðja snjóflóðið féll í Súgandafjörð og kom af stað flóðbylgju sem fór yfir hluta Suðureyrar.

„Þetta voru bara drunur í svona tvær sekúndur, svo bara gler að brotna. Og svo var ég bara þakin í snjó.” 
Alma Sóley Ericsdóttir Wolf, 14 ára.

„Þetta bara fór fram úr okkar björtustu vonum að ná henni úr þessu. Þetta leit mjög illa út.”
Eyþór Jónvinsson, björgunarsveitarmaður á Flateyri.

 • 16. janúar, tveimur dögum eftir snjóflóðin, fundust lík tveggja kínverskra ferðamanna á Sólheimasandi. Þau voru bæði um tvítugt og urðu að öllum líkindum úti í óveðrinu sem gekk yfir Suðurland. 
   
 • Daginn eftir, 17. janúar, skullu saman tveir bílar með frönskum og suðurkóreskum ferðamönnum á Skeiðarársandi. Fjórir slösuðust alvarlega, þar af þrjú börn. Þá um kvöldið fór bíll í sjóinn í Hafnarfirði og tveir ungir piltar slösuðust mjög alvarlega.  
 • Um hádegi miðvikudaginn 29. janúar féll snjóflóð í Móskarðshnúkum austanmegin í Esju. Sigurður Darri Björnsson grófst undir flóðinu og lést. Hann var 23 ára. 

35 útköll, 2.000 sjálfboðaliðar og 22 fjöldahjálparstöðvar

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út um það bil 35 sinnum síðan um miðjan desember. Hún hefur meðal annars tekið þátt í leit að fólki, aðgerðum í rafmagnsleysinu, björgun í hópslysum og í snjóflóðunum á Vestfjörðum og í Móskarðshnúkum.

1917 sjálfboðaliðar björgunarsveitanna á landinu öllu sinntu yfir 320 útköllum frá 10. desember til 17. janúar. Fólkið skilaði að meðaltali 18 tímum á mann og leystu meira en 2.100 verkefni. 

Rauði krossinn opnaði 22 fjöldahjálparstöðvar um nær allt land, að meðaltali meira en fjórar á viku, og veitti meira en 1.550 manns aðstoð eða áfallahjálp. Af 46 útköllum sem samtökin sinntu, voru 28 vegna óveðurs og fjögur vegna hópslysa eða umferðarslysa.