Fimm haftaár í viðbót of mikið

26.03.2011 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Róa þarf öllum árum til að afnema gjaldeyrishöftin sem fyrst, segir aðstoðarframkvæmdarstjóri Viðskiptaráðs Íslands. Tæp fimm ár, líkt og efnahags- og viðskiptaráðherra boði, sé alltof langur tími. Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands verða gjaldeyrishöftin afnumin í tveimur þrepum og ætlar Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra að biðja um heimild til að framlengja höftin um rúm fjögur ár. Í fyrri hluta áætluninnar á að afnema höft á svokölluðum aflandskrónum, sem eru í eigu útlendinga. Talið er að þær nemi allt að 500 milljörðum króna.

Samkvæmt áætluninni ætlar bankinn að kaupa þessar krónur og selja þær í útboðum í skiptum fyrir ríkisskuldabréf eða fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Í seinni hluta áætlunarinnar verður höftum aflétt af krónum í eigu fólks hér á landi. Haraldur Ingi Birgisson, aðstoðarframkvæmdarstjóri Viðskiptaráðs Íslands segir að margt hafi bent til þess að gjaldeyrishöftin yrðu við lýði í nokkurn tíma í viðbót.


„En fjögur ár í viðbót teljum við óásættanlegt. Við vitum að að höftin hafa haft afskaplega neikvæð áhrif á þróun atvinnulífsins og efnahagsbatann. Við teljum að það þurfi að gera betur heldur en að framlengja þau um fjögur ár. Það þarf bara að róa öllum árum að
því að afnema höftin sem allra fyrst.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi