Fimm greindust með COVID-19 í Eyjum - leikskóla lokað

19.03.2020 - 00:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm greindust með COVID-19-smit í Vestmannaeyjum í dag og eru staðfest smit þá orðin sjö talsins í Eyjum. Starfsmaður á leikskóla í bænum er á meðal hinna smituðu, og hefur leikskólanum verið lokað og tugir settir í sóttkví. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Þar segir að snemma í morgun hafi komið í ljós að einn starfsmaður á leikskólanum Sóla hafi greinst með COVID-19. Var leikskólanum lokað þegar í stað og tekið til við að rekja smitið. Niðurstaðan varð sú að 55 voru sett í sóttkví, þar af 27 starfsmenn og 14 börn. Tekið er fram að öll börnin tilheyri einum kjarna leikskólans og að ekki sé ástæða til að ætla börn á öðrum deildum hafi smitast, þar sem búið var að gera ráðstafanir til að hindra samgang milli deilda.

Unnið er að því að rekja smit hinna fjögurra sem greindust með COVID-19, en eftir atburði dagsins eru alls 133 í sóttkví í Eyjum. Búast má við því að þeim fjölgi eftir því sem rakningu smitanna fjögurra vindur fram.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi