Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fimm frumvörp til að rýmka tjáningarfrelsi

15.10.2018 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Einstaklingar sem lesa meiðyrðalöggjöfina í dag eru líklegir til að þegja því þar kemur fram að það sé hægt að kasta þér í fangelsi fyrir að móðga einhvern,“ segir Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar um tjáningar- fjölmiðla- og upplýsingafrelsi. Nefndin kynnti fimm tillögur um rýmra tjáningarfrelsi á blaðamannafundi í dag. Hún ætlar í framhaldinu að leggja til breytingar á lögum vegna lögbanns á umfjöllun einstakra fjölmiðla.

Nefndin leggur til fimm frumvörp sem öll miða að því að rýmka tjáningarfrelsi. Þeim hefur hverju um sig verið skilað til viðkomandi ráðherra. Nefndin var skipuð af forsætisráðherra með það fyrir augum að fara yfir lagafrumvörp stýrihóps í kjölfar þingsályktunartillögu Birgittu Jónsdóttur frá 2010, en Birgitta var þá þingflokksformaður Hreyfingarinnar. Tillaga hennar miðaði að því að skipa Íslandi afgerandi sérstöðu á sviði upplýsinga- og tjáningarfrelsis.

Finnst þér gengið nógu langt með þessum tillögum sem voru kynntar í dag?

„Já, algjörlega. Ég vona bara að þegar við fáum ábendingar eða þegar þetta fer í samráðsgáttina að það verði ekki óskað eftir því að þær gangi styttra. Ég er líka mjög ánægð að sjá eftir öll þessi ár og allar þessar ríkisstjórnir að við séum loksins að koma á þann stað að lögin séu að verða að veruleika,“ segir Birgitta, sem einnig sat í nefndinni.

Þörf á breytingum vegna lögbannsmálsins

„Það eru lögin sem setja rammann og þarna erum við að rýmka tjáningarfrelsið í lögum,“ segir Eiríkur. „Bæði erum við þá auðvitað að efla tjáningarfrelsið í reynd en við erum líka að koma í veg fyrir kælingaráhrif. Það skiptir líka máli hvernig lögin eru. Einstaklingar sem lesa meiðyrðalöggjöfina í dag eru líklegir til að þegja því þar kemur fram að það sé hægt að kasta þér í fangelsi fyrir að móðga einhvern og svo framvegis.“

Í framhaldinu ætli nefndin að skoða upplýsingalöggjöfina og lög um vernd uppljóstrara. „Svo er þriðja atriðið sem við munum alveg klárlega fara í er þessi spurning um lögbann á umfjöllun fjölmiðla. Það er auðvitað mál sem hefur borið mjög hátt og þar held ég að sé alveg ljóst að við þurfum einhverjar breytingar og það munum við líka ráðast í,“ segir Eiríkur og vísar þannig í lögbannsmál Glitnis gegn Stundinni og Reykjavík media.

Er sú umræða sem skapaðist í kringum það búin að hafa áhrif á ykkar starf?

„Já, að sjálfsögðu,“ svarar Eiríkur. „Eins og ég segi erum við að reyna að hlusta, horfa og hvetja fólk til að senda okkur ábendingar. Þegar maður verður þess var að hér hefur ríkt lögbann þetta lengi á umfjöllun fjölmiðla þá auðvitað hefur það áhrif á okkur, að sjálfsögðu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Stafi minni hætta af rafrænu eftirliti

Fyrsta frumvarpið sem kynnt var í dag miðar að því að afnema refsingar vegna ærumeiðinga. Þá verði sérstök æruvernd opinberra starfsmanna, erlendra ríkja, fána þeirra og leiðtoga afnumin. Önnur tillagan þrengir skilgreiningu laganna á hatursorðræðu. Í því felst rýmkun tjáningarfrelsis. Þriðja tillagan fjallar um þagnarskyldu embættismanna og er gengið út frá því að tjáningarfrelsi verði meginreglan. Reglur um þagnarskyldu opinberra starfsmanna er að finna í ýmsum lögum en eru hvergi teknar saman á einum stað eins og staðan er í dag.

Þá er lagt til að dregið verði úr ábyrgð þeirra sem hýsa gögn á netinu og skyldu þeirra til að fjarlægja gögn vegna meintra höfundarréttarbrota. Loks er lagt til að skylda fjarskiptafyrirtækja til að geyma gögn í hálft ár verði afnumin. Þannig stafi heimildarmönnum blaðamanna og uppljóstrurum minni hætta af rafrænu eftirliti, eins og sagði í kynningu nefndarinnar í dag.