Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fimm framboð á Fljótsdalshéraði

Mynd með færslu
 Mynd:
Fljótsdalshérað er víðfeðmasta sveitarfélag landsins og það næst fjölmennasta á Austurlandi með tæplega 3.500 íbúa.

Á bökkum Lagarfljóts mynda þéttbýlin á Egilsstöðum og í Fellabæ fjölmennasta byggðakjarna á Austurlandi með rúmlega 2.700 íbúa og hæga íbúafjölgun. Á Fljótsdalshéraði eru líka þrír smærri þjónustukjarnar. Á Eiðum, í Brúarási og á Hallormsstað. Héraðið er þekkt fyrir skógrækt sem er vaxandi iðnaður. Þéttbýlið er umlukið landbúnaðarsveitum og Egilsstaðir hafa verið kallaðir krossgötur Austurlands. Þar vinna flestir við þjónustu og iðnað en talsverður fjöldi fer til vinnu í álver Alcoa á Reyðarfirði. 

Skuldir Fljótsdalshéraðs voru tæpir 8 milljarðar í árslok eða 238% af tekjum. Í upphafi kjörtímabils dugði veltufé frá rekstri ekki fyrir afborgunum en nú hefur staðan lagast. Áætlanir gera ráð fyrir að skuldir verði komnar niður í 150% mörkin árið 2019 eða þremur árum fyrr en krafist er.

Miklar skuldir Fljótsdalshéraðs má meðal annars rekja til stórrar fjárfestingar í grunnskólabyggingu á Egilsstöðum. En byggingin hefur líka skapað tækifæri til hagræðingar og hefur tónlistarkennsla á Egilsstöðum verið flutt inn í skólann. Eitt af stærstu málum næsta kjörtímibils verður hvernig hagræða skuli í skólamálum. Í fyrra fóru 55% af skatttekjum í fræðslumál en framboðin vilja fara ólíkar leiðir í að ná þeim kostnaði niður. 

Eftir síðustu kosningar mynduðu Framsóknarflokkur og Á-listi fimm manna meirihluta en Héraðslistinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru í minnihluta. Átakamál hafa verið fá en helst má nefna ágreining um reiðhöll hestmanna á Iðavöllum. Meirihlutinn taldi sveitarfélagið knúið til að kaupa reiðhöllina á nauðungaruppboði og taka lán upp á 25,5 milljónir, til að byggingin færi ekki undir aðra starfsemi og til að vernda það sem sveitarfélagið hefði lagt í reiðhöllina. Sjálfstæðismenn og Héraðslistinn hafa gagnrýnt hvernig staðið var að kaupunum.

Á Fljótsdalshéraði eru fimm framboð. Á-listi áhugafólks um sveitastjórnarmál fékk tvo menn síðast. Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs leiðir listann: „Á-listinn er óháð framboð. Á honum er fólk með víðtæka þekkingu á sveitarfélaginu, þörfum þess og tækifærum jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Á þessu kjörtímabili höfum við náð góðum árangri í að rétta við fjárhag sveitarfélagsins án þess þó að skerða þess miklu og góðu grunnþjónustu. Á þessari braut viljum við vinna áfram þannig að Fljótsdalshérað megi áfram verða góður valkostur til búsetu".

Listi Framsóknarflokkins fékk þrjá menn í síðustu kosningum, listann leiðir Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar: „Undir forystu framsóknar þá hefur tekist að ná góðum tökum á rekstri sveitarfélagsins. Það var farið í skynsamlegar og hagkvæmar breytingar innan skólakerfisins. Ráðist í byggingu ný og glæsilegs hjúkrunarheimilis og verið unnið að mjög mörgum spennandi verkefnum á sviði atvinnumála. Allt þetta hefur verið unnið í mikilli sátt og samlyndi innan bæjarstjórnar, það er ekki sjálfgefið að svo sé en lista Framsóknarflokksins leiðir reynslumikið fólk, samvinnufólk sem að vill gjarnan sjá unnið í þessum anda og býður sig fram til að leiða þetta samstarf". 

Talsverð nýliðun er á lista Sjálfstæðisflokksins sem átti einn mann í bæjarstjórn á kjörtímabilinu. Efsta sætið skipar Anna Alexandersdóttir: „Störfum saman er kjörorð okkar á D-listanum því við trúum því að samvinna sé lykillinn að aukinni hagsæld. Það er forgangsatriði okkar að lækka skuldir sveitarfélagsins með samvinnu, hagræðingu ásamt því að auka tekjur. Við viljum sjá aukna nýtingu á Egilsstaðaflugvelli, einnig er mikilvægt að tryggja stöðugleika á raforku og gera sveitarfélagið eftirsótt fyrir nýja atvinnustarfsemi. Hér er gott að búa. Góðir skólar, fjölbreytt íþrótta og menningarstarf ásamt blómlegum sveitum að öllu þessu þurfum við að hlúa".

Endurreisn - listi fólksins er nýtt framboð. Efstur á lista er Áskell Einarsson: „Endurreisn - listi fólksins á Fljótsdalshéraði vill gera allt fyrir alla en meira fyrir suma. Með fyrirvara um efndir. Svo viljum við virkja lýðræðið og að íbúarnir ráði um allar meiriháttar ákvarðanir. Svo viljum við líka minnka skuldahlutfall sveitarfélagsins niður í 75% en ekki 243% eins og núverandi meirihluti ætlar að skilja við. Númer eitt tvö og þrjú er að fella þennan meirihluta í næstu kosningum og að E-listinn taki völdin. Takk fyrir".

Héraðslistinn samtök félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði fékk þrjá menn síðast, listann leiðir Sigrún Blöndal: „Héraðslistinn leggur áherslu á samvinnu. Samvinnu milli fólks, milli stofnana og milli sveitarfélaga. Með góðri samvinnu verðum við öflugri og betur fær um að takast á við verkefni sem okkur eru falin. Héraðslistinn mun beita sér fyrir því að mörkuð verði lýðræðisstefna þar sem áhersla er á aðgengi íbúa að upplýsingum og bætta starfshætti. Jafnréttismál, umhverfismál og aðhald í fjármálum eru okkur hugleikin en fyrst og fremst það að Fljótsdalshérað verði enn betri staður til að búa á og við horfum bjartsýn til framtíðar".