Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fimm flokkar á móti olíuleit, tveir hlynntir

Mynd: rúv / rúv
Sýn stjórnmálaflokkanna á það hvort ráðast skuli í vinnslu á Drekasvæðinu, finnist þar olía, er misjöfn. Sumir vilja stöðva leitar- og vinnsluáform komist þeir til valda. Lárus M. K. Ólafsson, fyrrverandi yfirlögfræðingur hjá Orkustofnun, vann að undirbúningi leyfisútboðanna og sérleyfanna á sínum tíma. Hann segir ekki hægt að fella leyfin niður bótalaust. 

„Okkar leyfi eru þannig sett upp að þau eru samtvinnuð leitar-, rannsóknar- og vinnsluleyfi þannig að það er ekki hægt að rjúfa þau í sundur eða fella niður bótalaust þannig að ég sé ekki að það sé hægt með öðrum hætti en að bæta leyfishöfum sitt tjón.“

Segir Lárus.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Lárus M. K. Ólafsson

Þórarinn Sveinn Arnarson, verkefnastjóri olíuleitar hjá Orkustofnun segir leyfin standa, ætli stjórnvöld sér að draga þau til baka þurfi þau að öllum líkindum að greiða leyfishöfum sem hafi lagst í mjög dýrar rannsóknir háar skaðabætur. Hann getur ekki gefið upp hversu dýrar rannsóknirnar eru þar sem hann er bundinn fyrirtækjunum trúnaði. Rannsóknaráætlanir í tengslum við olíuleitarleyfin eru áfangaskiptar. Leyfishafar skuldbinda sig til að ljúka hverjum áfanga. Uppfylli þeir öll rannsóknarskilyrði fá þeir að hefja þann næsta. Leyfissvæðin eru tvö. Vinnsla á því minna gæti hafist árið 2023 en vinnsla á því stærra árið 2026, að því gefnu að vinnanlegt magn olíu finnist. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Stærra leyfissvæðið; svæði CNOOC, Petoro Iceland og Eykon Energy, er rúmlega 6000 ferkílómetrar að stærð.
Kosningar 2016
Frá umræðum fulltrúa flokkanna í sjónvarpssal 23.9. síðastliðinn.  Mynd: Ísgerður Gunnarsdóttir - RÚV

Spegillinn spurði þá flokka sem bjóða fram nú út í afstöðu þeirra til olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Í stuttu máli var niðurstaðan þessi: 

Fylgjandi leit og hugsanlegri vinnslu: Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur

Á móti leit og hugsanlegri vinnslu: Samfylking, Vinstri grænir, Alþýðufylkingin, Björt framtíð og Húmanistaflokkurinn. 

Aðrir flokkar tóku ekki skýra afstöðu með eða á móti vinnslu. 

Björt framtíð vill afturkalla leyfin

Húmanistaflokkurinn er alfarið á móti olíuleit á Drekasvæðinu. Björt Framtíð telur óásættanlegt að Ísland hefji vinnslu á Drekasvæðinu, nú þegar ljóst sé að þjóðir heims verði að draga miklu hraðar úr olíunotkun til að sporna við áhrifum loftslagsbreytinga. Ísland hafi, með útgáfu leyfanna, ekki skuldbundið sig til þess að leyfa olíuvinnslu. Fram kemur í svari flokksins að kæmist flokkurinn til valda yrði stefnt að því að afturkalla leyfin án þess að skaða hlut leyfishafa, flokkurinn telji framtíð komandi kynslóða þó verðmætari en útlagðan kostnað einstakra fyrirtækja. Alþýðufylkingin telur olíuleit og hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu efnahagslegt glæfraspil og nær óverjandi í umhverfislegu tilliti. Auk þess sé tilhögun vinnslunnar í mótsögn við stefnu flokksins sem leggist gegn því að auðmenn sölsi undir sig vatns- og orkuauðlindir þjóðarinnar.

Rétt að fara mjög varlega

Flokkur fólksins telur rétt að fara mjög varlega í olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu, allir öryggisþættir þurfi að vera uppfylltir, ekki síst varðandi hugsanleg umhverfisslys. Þá sé vinnsla í þversögn við fyrirheit Íslendinga í tengslum við Parísarsáttmálann. Flokkurinn telur að hægt sé að koma í veg fyrir að handhafar leitarleyfa vinni olíu á svæðinu. Telji handhafar sig eiga skaðabótakröfu á hendur ríkinu þyrfti einfaldlega að láta reyna á það fyrir dómi.

Vinnslan yrði sennilega of dýr vegna gjaldtöku

Viðreisn hefur ekki ályktað sérstaklega um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Í umhverfis- og auðlindastefnu flokksins kemur fram að hann vilji taka upp markaðstengt afgjald fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu. Afgjaldið eigi að lágmarki að nema þeim umhverfiskostnaði sem nýtingin valdi. Þannig vill flokkurinn tryggja að meiri hagsmunum verði aldrei fórnað fyrir minni við ákvarðanir um nýtingu umhverfis og auðlinda. Í svari flokksins við fyrirspurn Spegilsins segir að ekki þurfi að banna vinnslu á svæðinu sérstaklega heldur tryggja að allur kostnaður sé tekinn með í reikninginn þegar nýtingargjald er ákvarðað. Til viðbótar við markaðstengda afgjaldið vill flokkurinn að olíuiðnaðurinn greiði fyrir áhættu vegna olíuslysa, loftslagsáhrifa olíunnar og annars sem telja megi til. Flokkurinn telur afar ólíklegt, að þessum skilyrðum uppfylltum, að vinnsluleyfin verði veitt eða nýtt, þar sem sennilega yrði auðveldara að sækja olíu annað fyrir lægra verð. Flokkurinn segir þessar áherslur rúmast innan núgildandi laga. 

Vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um málið

Íslenska þjóðfylkingin telur að setja eigi málefni Drekasvæðisiins á bið og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið. 
Dögun hefur ekki tekið afstöðu til olíuleitar og vinnslu á svæðinu. Píratar hafa ekki heldur tekið formlega afstöðu með eða á móti olíuleit og hugsanlegri vinnslu. Flokkurinn telur að gæta þurfi fyllstu varúðar við olíuvinnslu þar sem hætta sé á alvarlegum eða óafturkræfum áhrifum á umhverfi. Olíuvinnsla þyrfti að uppfylla ströng skilyrði um öryggi og gagnsemi og eðlileg auðlindarenta þyrfti að renna til þjóðarinnar. Flokkur Pírata telur að Ísland eigi að leitast við að draga verulega úr notkun á jarðefnaeldsneyti með aukinni rafbílavæðingu. Þá þurfi Ísland að standa við skuldbindingar gagnvart Parísarsamkomulaginu, þær skuldbindingar gætu að þeirra sögn verið sterk rök fyrir því að koma í veg fyrir vinnslu. 

Framsókn vill kanna möguleikann til hlítar

Framsóknarflokkurinn kvikar ekki frá þeirri stefnu sinni að tækifæri til olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu verði könnuð til hlítar og hagnýtt, gefi rannsóknir tilefni til. Komi til vinnslu skuli gæta ítrustu varúðar í umhverfismálum, enda eigi Íslendingar mikið undir auðlindum hafsins. Hefja skuli undirbúning að stefnumörkun um umhverfismál og uppbyggingu innviða í tengslum við olíuleit og vinnslu enda ljóst að talsverð umsvif komi til með að fylgja henni ef af verður. Þá þurfi að tryggja að sanngjarnt nýtingargjald renni til þjóðarinnar. 

Útiloka ekki fleiri leyfisútboð

Sjálfstæðisflokkurinn er fylgjandi atvinnuuppbyggingu í tengslum við hagkvæma nýtingu orkuauðlinda. Í svari flokksins við fyrirspurn Spegilsins kemur fram að núverandi ríkisstjórn hafi tekið við olíuleitarferlinu úr höndum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Finnist auðlindir í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu muni hún beita sér fyrir nauðsynlegri undirbúningsvinnu vegna þess. Flokkurinn útilokar ekki að ráðast í fleiri leyfisútboð. Flokkurinn tekur ekki afstöðu til þess hvort hægt sé að koma í veg fyrir vinnslu á svæðinu. Í svari hans segir að í spurningunni felist forsendur um stöðu sem ekki sé uppi og Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki tekið lagalega afstöðu til allra mögulegra álitaefna framtíðar. 

Steingrímur: „Allir fyrirvarar af okkar hálfu“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Fyrstu sérleyfin undirrituð.

Árið 2005 samþykkti ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að hefja undirbúning vegna olíuleitar á Drekasvæðinu. Það var svo ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar sem samþykkti að veita fyrstu sérleyfin. Þau voru gefin út þann 4. janúar 2013. 

„Það er áhugavert að vita hvað þarna finnst. Þetta er leitar- og rannsóknarþáttur með öllum fyrirvörum af okkar hálfu varðandi umhverfismálin og öryggismálin á þessu svæði. Þetta jafngildir ekki ákvörðun um að leyfa þarna boranir eða vinnslu.“ 

Fréttamaður: En er það ekki þannig að þessir hópar sem fá leyfi til að leita fá jafnframt leyfi til að vinna olíu ef að því kemur? 

„Að því tilskyldu að slíkir möguleikar finnist þarna eða líti út fyrir þá og að því tilskyldu að öllum umhverfis og öryggisskilyrðum sé fullnægt. Það er sjálfstæð ákvörðun. Hvert og eitt skref í framhaldinu fer í umhverfismat og boranir og slíkt liggja langt inni í framtíðinni, að taka afstöðu til.“

Sagði Steingrímur J. Sigfússon, þá atvinnumálaráðherra, í Speglinum 4. janúar 2013. 

Búin að breyta um kúrs

Síðar áttu Vinstri grænir og Samfylking eftir að taka U-beygju. Í ályktun frá landsfundi VG frá í fyrra segir að flokkurinn leggist gegn hugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslensku yfirráðasvæði, þar með talið olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Frekari olíuvinnsla sé tímaskekkja og vinni gegn samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Samfylkingin samþykkti svipaða ályktun á sínum landsfundi. Í henni kom fram að vinnsla jarðefnaeldsneytis væri ekki í samræmi við hagsmuni Íslendinga, skapaði hættu á mengunarslysum og ógnaði fiskimiðum. Það sé mat flokksins að leyfisveitingarnar hafi verið mistök. En hvað um Vinstri græna, telja þeir að leyfisveitingarnar hafi verið mistök? 

„Ja, þessi ákvörðun var mjög umdeild innan Vinstri grænna og það spratt upp mikil umræða. Það kannski spilast þar inn í að þær skýrslur sem hafa verið að koma á síðustu árum hafa orðið æ svartari hvað varðar þróun loftslagsmála. Það varð niðurstaða okkar eftir umræðu í okkar hreyfingu að við myndum taka afstöðu gegn olíuvinnslu við Ísland.“

Segir Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins. Hún segir að komist flokkurinn til valda muni hann taka upp viðræður við leyfishafa. Hún telur ekki sjálfgefið að ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart þeim. Stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur þurfi að vinna saman að því að uppfylla loftslagsmarkmið. 

„Við bara munum fara í þær viðræður og okkar stefna er alveg skýr. Það mega þá allir vita hverju þeir eiga von á, að þetta er eitthvað sem við munum taka upp.“

Samfylkingin segir alls ekki útséð með hvort það séu yfir höfuð fjárhagslegar forsendur fyrir vinnslu á svæðinu, því hafi ekki verið ástæða til þess að marka stefnu um hvort afturkalla eigi þau leyfi sem gefin hafa verið út eða hverju eigi að kosta til þess. 

Brot á milliríkjasamningum

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy.

Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy, eins leyfishafans á Drekasvæðinu, segir holan hljóm í stefnu fyrrum stjórnarflokkanna. Leyfisveitingarnar hafi á sínum tíma verið samþykktar af öllum flokkum og leyfishafar hafi tekið á sig miklar skuldbindingar. Þeir hafi þegar ráðist í miklar og dýrar rannsóknir. Hann á bágt með að skilja hvernig ætti að vera hægt að stöðva ferlið. 

„Þarna er ekki bara verið að fjalla um skaðabætur heldur um brot á milliríkjasamningum sem snúa að fjárfestingasamningum á milli landa, viðskiptum á milli landa. Þeir samningar væru brotnir. Það hefði náttúrulega miklar afleiðingar í för með sér. Ég er ekki sérfræðingur um slík mál en við vitum að ef þú brýtur alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins þá hefur það mikinn kostnað og vondar afleiðingar í för með sér.“

Heiðar segir prinsippafstöðu gegn olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu skjóta skökku við í ljósi mikillar olíunotkunar Íslendinga.

„Það er þetta samhengi hlutanna. Einhverjir segja að við eigum ekki að vera í þungavinnslu eins og olíuvinnslu, við skulum frekar byggja upp ferðamannaiðnað. Keflavíkurflugvöllur brennir gríðarlegu magni af þotueldsneyti þannig að ef við fyndum þarna milljarðs tunna lind, sem væri einn stærsti olíufundur úti á sjó í meira en tíu ár, þá myndi hann ekki einu sinni duga Keflavíkurflugvelli á líftíma lindarinnar, sem væri kannski tuttugu ár. Hann myndi kannski duga fyrir helmingnum af því sem flugvöllurinn þyrfti. Ísland í raun og veru er það land í heiminum sem notar mest af olíu per haus ef allt er með tekið, flutningar til og frá landinu, í formi skipa og flugvéla. Við erum þarna í alveg sér klassa ásamt Singapúr. Við eyðum miklu meiri olíu en Bandaríkin en einhvern veginn erum við með þá hugmynd í kollinum að við séum grænni en flest önnur lönd af því við hitum húsin okkar og framleiðum rafmagnið með endurnýjanlegum orkugjöfum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Þá segir hann að finnist olía í miklu magni á Dreksvæðinu yrði vinnsla þar hagkvæmari en annars staðar. Hægt að framleiða meira með minni tilkostnaði og minni útblæstri. 

„Síðan vitum við, það er verið að setja reglur núna um að rafmagnsvæða bílfota bæði í Noregi á það að gerast fyrir 2025 og í Þýskalandi fyrir 2030, að engir nýir bílar verði seldir án þess að vera með rafmagnsvél. Það sem það gerir er að það ýtir í raun bara útblæstrinum til. Bílarnir nota þá ekki lengur olíu en þeir þurfa rafmagn og rafmagn er búið til með kolum eða gasi og kol menga tvöfalt eða mun meira í formi brennisteinsmengunar, hundraðfalt meira en gas. Þannig að olíu og gasvinnsla leysir af hólmi kolavinnslu og ef olíu- og gasvinnsla er unnin á hagkvæman hátt þar sem umhverfisþættir eru í hávegum hafðir er það miklu betri lausn en núverandi ástand.“ 

Þess má geta að nær allt rafmagn í Noregi framleitt með virkjun vatnsfalla. Því ætti rafbílavæðing þar ekki að ýta undir kolavinnslu. Í Þýskalandi hefur hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa verið að aukast, í fyrra var 55% rafmagns framleitt með jarðefniseldsneyti, einkum kolum, 15% raforku var framleitt með kjarnorku og 31% með endurnýjanlegum orkugjöfum.