Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm fangar ákærðir fyrir tvær árásir á Litla Hrauni

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Fimm fangar hafa verið ákærðir fyrir tvær líkamsárásir í æfingasal íþróttahúss fangelsisins að Litla Hrauni í mars á síðasta ári. Krafist er miskabóta upp á 4,5 milljónir í málinu.

Einn fanginn er ákærður fyrir að veitast að samfanga sínum og slá hann með krepptum hnefa. 

Hinir fjórir virðast hafa brugðist við þeirri árás með því að veitast að árásarmanninum og sló einn þeirra hann með tæplega hálfs metra langri gripstöng úr málmi í höfuðið. Hinir þrír létu högg og spörk dynja á honum. 

Sá sem varð fyrir fyrri árásinni krefst miskabóta upp á eina milljón en fanginn sem fjórmenningarnir réðust á vill 3,5 milljónir í miskabætur.

Tveir af föngunum fjórum sem ákærðir eru fyrir seinni árásina afplána dóm fyrir tilraun til manndráps.  Annar þeirra var dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að stinga mann ítrekað í andlit og búk fyrir utan hraðbanka í miðbæ Akureyrar í nóvember 2018.  Hinn var dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að stinga mann í kviðinn í október 2017. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV