
Á Stöð í Stöðvarfirði eru fornleifafræðingar nú annað sumarið í röð við uppgröft landnámsskála og fleiri fornminja. Skálinn virðist nú vera 25 metra langur og um 6 metra breiður að innanmáli. Undir honum fannst annar skáli, líklega rúmum hundrað árum eldri samkvæmt geislakolsgreiningum.
Möguleg útstöð höfðingja
„Samkvæmt þeim þá er sá skáli frá fyrri hluta 9. aldar. Það verður að taka þeim greiningum eins og þær eru en það er engin ástæða til að vantreysta þeim. Og það er þá ekki eiginlegur bær heldur útstöð frá Evrópu. Þá er kenningin sú að hingað hafi einhver með nægjanlega mikil völd og einhver sem átti skip sent sitt fólk hingað á þessa eyju til þess að vera hér um tíma, safna auðlindum, gera lýsi, gera til kola, vinna járn úr mýrunum, veiða fugl, veiða fisk og halda svo heim að hausti og leggja þetta inn í bú stórbóndans sem þannig gat nýtt þær auðlindir til að halda völdum og tryggja sín völd. Annar möguleiki sem sami höfðingi hefur haft var að senda lið til Bretlandseyja og ræna dálitlu af silfri en hvort tveggja er undirstaða valdsins og smákonungadæmanna í Norður-Evrópu,“ segir Dr. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum.
Fagrir gripir
Í gólfi eldri skálans fannst fallegur gripur, silfurhringur munstraður. „Þetta er ósköp einfaldur hringur; sívalningur með skreyti á báðum hliðum. Það gæti verið kaðlaskreyti en mér sýnist það vera brotin lína,“ segir Bjarni. Einnig hafa í sumar fundist fagrar perlur, meðal annars tvíperlur húðaðar gulli og silfri, sauðaklippur úr járni og einnig má nefna rómverska og arabíska peninga.
10-15 ár að ljúka rannsókninni á sama hraða
Fjárveitingar hafa aðeins dugað til að grafa í einn mánuð á sumri og með því áframhaldi telur Bjarni að 10 til 15 ár taki að ljúka rannsókninni „Húsum fjölgar; við erum þegar komin upp í fimm. Tveir skálar og sá yngri gríðarlega stór. Þannig að ég veit ekki alveg hver framtíð rannsóknanna verður. Fimmtán ár er of langur tími,“ segir Bjarni.