Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fimm ára þingsögu Bjartrar framtíðar lokið

29.10.2017 - 03:03
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Flokkurinn sem virtist á leið með að verða einn stærsti flokkur landsins í aðdraganda kosninga fyrir fjórum árum er nú að þurrkast út af þingi. Björt framtíð var stofnuð snemma árs 2012 og átti þá tvo fulltrúa á þingi. Það voru Guðmundur Steingrímsson, sem kosinn hafði verið á þing fyrir Framsóknarflokkinn, og Róbert Marshall, sem náði kjöri fyrir Samfylkinguna í kosningunum árið 2009. Þeir sögðu skilið við sína gömlu flokka og stofnuðu nýja hreyfingu sem átti að boða nýja tíma í stjórnmálum.

Saga Bjartrar framtíðar er um margt dæmigerð fyrir nýja flokka sem boðið hafa fram til hliðar við fjórflokkinn. Kvennalistinn er sá eini sem komist hefur í gegnum meira en þrennar kosningar án þess að falla aftur af þingi. Kvennalistinn var fyrst kosinn á þing árið 1983 og náði konum á þing í hverjum kosningum fram til 1995. Kvennalistinn hvarf svo af þingi árið 1999 þegar flokkurinn bauð fram sameiginlega ásamt Alþýðuflokknum og Alþýðubandalaginu undir merkjum Samfylkingarinnar. Aðrir nýir flokkar hafa fæstir lifað áratuginn á þingi.

Björt framtíð var formlega stofnuð í febrúar 2012. Fylgi flokksins mældist þó ekki mikið í fyrstu skoðanakönnunum. Björt framtíð sótti í sig veðrið þegar leið á árið og snemma árs 2013 mældist fylgi flokksins hátt í 20 prósent. Það hélst þó ekki lengi enda urðu miklar sviptingar í fylgi flokka fram að kosningum það vorið, sérstaklega þegar Framsóknarflokkurinn stórjók fylgi sitt síðustu mánuði fyrir kosningar. Þegar komið var að kosningum studdu 8,2 prósent kjósenda Bjarta framtíð. Það skilaði flokknum sex þingsætum og hefur reynst besta útkoma flokksins í Alþingiskosningum.

Misjafnt gengi eftir fyrstu kosningar

Þó fylgi Bjartrar framtíðar hafi dregist saman fyrir kosningar 2013, frá því sem kannanir gáfu til kynna í upphafi árs, reis það á ný vetur 2013 til 2014. Það mældist 17,5 prósent í Þjóðarpúlsi Gallup í mars 2014. Eftir það tók að síga á ógæfuhliðina, sérstaklega þegar Píratar tóku að sækja í sig veðrið undir lok árs 2014.

Þegar komið var fram á árið 2015 fór að gæta óánægju innan Bjartrar framtíðar með bágt gengi flokksins. Heiða Kristín Helgadóttir, ein af hvatamönnum Besta flokksins í Reykjavíkurborg og stofnandi Bjartrar framtíðar, var stjórnarformaður Bjartrar framtíðar. Hún var meðal þeirra sem gagnrýndi formann flokksins, Guðmund Steingrímsson. 

Guðmundur ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs og Óttarr Proppé, þingmaður flokksins og fyrrverandi borgarfulltrúi Besta flokksins, var kosinn formaður. Þetta skilaði sér þó ekki í betra gengi því fylgi Bjartrar framtíðar mældist iðulega undir þeim fimm prósenta mörkum sem þarf til að fá jöfnunarsæti á þingi.

Mynd: RÚV / RÚV

Uppsveifla á síðustu stundu

Rúmum mánuði fyrir síðustu þingkosningar voru fáar ef nokkrar vísbendingar um að Björt framtíð næði kjörnum þingmönnum í öðrum kosningum sínum. Fylgi flokksins mældist undir þremur prósentum í tveimur Þjóðarpúlsum Gallup í röð í ágúst og september 2016. 

Flokkurinn náði að stórauka fylgi sitt síðustu vikurnar fyrir kosningar. Það var ekki síst rakið til þess að flokkurinn barðist gegn samþykkt nýs búvörusamnings í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Þar markaði flokkurinn sér sérstöðu fyrir kosningarnar og það skilaði honum rúmum sjö prósentum atkvæða og fjórum þingsætum. Þó uppskeran væri færri þingsæti en í næstu kosningum á undan var niðurstaðan mun betri en búist hafði verið við skömmu áður.

Í samstarf við Viðreisn

Eftir kosningar mynduðu Björt framtíð og Viðreisn þar sem kalla mætti stjórnarmyndunarviðræðnabandalag. Flokkarnir tóku höndum saman og komu sameiginlega fram í viðræðum við aðra flokka þegar reynt var í hálfan þriðja mánuð að mynda ríkisstjórn. Því lauk með myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Sú stjórnarmyndun var mjög umdeild innan Bjartrar framtíðar þrátt fyrir að meirihluti samþykkti stjórnarsamstarfið.

Óvænt stjórnarslit

Fjögurra manna þingflokkur Bjartrar framtíðar fékk tvö ráðherrasæti þegar nýja stjórnin var mynduð. Óttarr Proppé, formaður flokksins, varð heilbrigðisráðherra, og Björt Ólafsdóttir varð umhverfisráðherra. Fylgi flokksins fór hins vegar minnkandi.

Umræða um uppreist æru barnaníðinga hófst í júní þegar Robert Downey endurheimti lögmannsréttindi sín með dómi Hæstaréttar. Þá kom fyrst í ljós að hann hefði fengið uppreist æru vegna kynferðisbrota sinna gegn nokkrum stúlkum. Umræðan hélt áfram fram á sumarið og kom í ljós að fleiri hefðu fengið uppreist æru, þar á meðal Hjalti Sigurjón Hauksson sem dæmdur hafði verið fyrir barnaníð. 

Í haust kom fram að faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra hafði skrifað meðmælabréf með því að Hjalti fengi uppreist æru. Þegar í ljós kom að Bjarni hafði fengið upplýsingar um það án þess að upplýsa samstarfsflokka sína í ríkisstjórn þótti stjórn Bjartrar framtíðar nóg komið. Boðað var til fundar að kvöldi dags í september og þar greidd atkvæði. Niðurstaðan var sú að stjórnarsamstarfinu var slitið. Þingmenn og ábyrgðarmenn Viðreisnar komu saman til fundar um nóttina og sömdu ályktun þess efnis að boðað skyldi til kosninga. Fulltrúar beggja flokka sögðu að framganga Sjálfstæðisflokksins eftir að umræða um uppreist æru barnaníðinga kom upp hefði ein og sér dugað til að slíta stjórnarsamstarfinu.

Náðu ekki vopnum sínum

Björt framtíð háði þriðju kosningabaráttuna í sögu flokksins í haust. Strax varð ljóst að flokkurinn myndi eiga erfitt uppdráttar. Eftir því sem nær dró kosningum dró úr fylgi flokksins samkvæmt skoðanakönnunum og var það farið að mælast undir tveimur prósentum undir lokin.

Þegar upp var staðið var fylgi flokksins um eitt prósent atkvæða. Flokkur sem dottið hefur út af þingi hefur ekki fengið svo slæma útreið í kosningum síðan Bandalag jafnaðarmanna féll af þingi árið 1987, fjórum árum eftir að Vilmundur Gylfason leiddi flokkinn í kosningum og náði 7,3 prósenta fylgi. Í öðrum kosningum flokksins höfðu þingmenn hans snúið sér annað og fylgið reyndist aðeins 0,2 prósent.

Enginn flokkur sem fallið hefur af þingi í kosningum hefur átt þangað afturkvæmt síðar.

Það er svo kannski lýsandi fyrir bágt gengi Bjartrar framtíðar í þessum kosningum að einn stofnenda flokksins, Róbert Marshall, lýsti á dögunum yfir stuðningi við Vinstri-græna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV