Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm ára fangelsi fyrir árás á Shooters

20.02.2019 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag tvo pólska karlmenn í Shooters-málinu svokallaða. Annar þeirra var dæmdur í fimm ára fangelsi en hinn sex mánaða. Mennirnir voru báðir ákærðir fyrir að hafa ráðist á dyravörð á skemmtistaðnum Shooters í ágúst í fyrra. Annar þeirra Artur Pawel Wisocki var síðan ákærður fyrir að ráðast á annan dyravörð á sama stað með þeim afleiðingum að dyravörðurinn lamaðist fyrir neðan háls. Hann var í ákæru sagður hafa sparkað og lamið ítrekað í andlit dyravarðarins.

Fyrir dómi neitaði maðurinn því að hafa kýlt dyravörðinn og sparkað í hann liggjandi. Hann sagðist heldur ekki vita hvernig dyravörðurinn hefði dottið. Hann og félagi hans hefði mætt miklum fjandskap af hálfu dyravarðanna og báðum verið vísað burt. 

Hann sæi mikið eftir því að hafa farið aftur yfir á Shooters, það væru verstu mistök sem hann hefði gert á ævinni. „Mér líður mjög illa og hef aldrei liðið svona illa. Ég hugsa stanslaust um þetta og get ekki sofið. Ég iðrast þess og biðst afsökunar á því sem gerst hefur,“ sagði maðurinn fyrir dómi. 

Hinn dyravörðurinn sagði líf sitt hafa gjörbreyst eftir árásina. „Ég trúði því ekki hvað hafði komið fyrir besta vin minn, sem var eins og bróðir minn,“ segir maðurinn um félaga sinn sem lamaðist. 

Dyravörðurinn sem lamaðist gerði kröfu um 120 milljónir króna í bætur vegna árásarinnar. Hann fær dæmdar sex milljónir. Hinn dyravörðurinn, sá sem slasaðist minna, fær sex hundruð þúsund krónur í bætur.