„Fíllinn í stofunni heitir Ríkisútvarpið“

25.01.2018 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Óli Björn Kárason, málshefjandi í umræðu um einkarekna fjölmiðla á Alþingi í hádeginu, sagði að íslenskir fjölmiðlar ættu í óeðlilegri samkeppni gagnvart Ríkisútvarpinu og sá leikur væri eins ójafn og nokkur samkeppnisrekstur geti verið. Ríkisútvarpið væri fíllinn í stofunni. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra leggur áherslu á að endurskoða virðisaukaskatt gagnvart fjölmiðlum.

Lilja segist vilja halda í mjög öflugt Ríkisútvarp en ef taka eigi RÚV af auglýsingamarkaði þurfi að huga að mótvægisaðgerðum. 

„Við eigum að búa hér til umhverfi þar sem að frjálsir fjölmiðlar, sjálfstæðir fjölmiðlar ná að blómstra og nái að festa rætur þannig að þeir geti sinnt sínu hlutverki. Það er bara staðreynd að miðað við það fyrirkomulag sem við höfum haft þá er búið að skekkja stöðuna með þeim hætti að það verður ekki við unað, fíllinn í stofunni heitir Ríkisútvarpið,“ sagði Óli Björn, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði að það væri alveg ljóst að staða RÚV væri einstök. Hvergi í heiminum hefði ríkisfjölmiðill jafn sterka stöðu á auglýsingamarkaði, en ef menn ætli að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði þurfi að huga að mótvægisaðgerðum. „Og við viljum að sjálfsögðu halda í mjög öflugt Ríkisútvarp,“ sagði Lilja. Hún ætlar að láta móta fjölmiðlastefnu og fara sem fyrst í nauðsynlegar aðgerðir enda sé staða margra einkarekinna fjölmiðla hér á landi mjög bágborin.

Í umræðunum sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, að það væri fleira en fjárhagsáhyggjur að hrjá fjölmiðla þessa dagana. Ráðuneyti og Alþingi eigi það til að svara fyrirspurnum fjölmiðla seint. „Ég verð líka að nefna lögbannið á Stundina. Við erum í þeirri stöðu að fulltrúi framkvæmdavaldsins setti fyrir 100 dögum lögbann um umfjöllun um hagsmunatengsl æðstu valdhafa. Ég hef meiri áhyggjur af 100 daga hömlum á tjáningarfrelsi en einhverri virðisaukaprósentu,“ sagði Andrés Ingi.

Menntamálaráðherra hefur boðað frekari umræðu á Alþingi um efni skýrslunnar. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi