Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fíkn hættulegasti sjúkdómur samtímans

16.09.2018 - 18:34
Að minnsta kosti 30 fíklar undir fertugu hafa látist það sem af er ári. Kókaínneysla hefur aukist mikið og faraldur í misnotkun sterkra verkjalyfja er ekki í rénun. Forstjóri Íslenskrar erfðargreiningar segir fíkn hættulegasta sjúkdóm samtímans.

Endurtekin hegðun sem gengur í erfðir

Flestir vísindamenn sammælast um að fíkn gangi í erfðir. Íslensk erfðagreining hefur rannsakað erfðafræði fíknar í mörg ár og komist meðal annars að þeirri niðurstöðu að fjölskyldulægni sé mjög sterk. Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir samfélagið eiga verulega erfitt með að fást við fíknivandann. 

„Það sem við lítum á sem fíkn, sem verður fíkn þegar hún er komin yfir ákveðin mörk, er hluti af starfsemi heila allra okkar. Þessi tilraun til endurtekinnar hegðunar hlýtur að hafa reynst okkar dýrategund nauðsynlegri til þess að lifa af, annars væri hún ekki þarna,” segir Kári. 

Nánir ættingjar alkóhólista eru nær tvöfalt líklegri að þróa með sér áfengisfíkn og áhættan vex eftir því sem efnin verða sterkari. 

„Eins og stendur þá er þetta ekki bara einhver algengasti sjúkdómurinn hjá ungu fólki í okkar samfélagi, heldur líka sá hættulegasti. Þetta er sá sjúkdómur sem leggur líklega flesta að velli, veldur dauða líklega flestra, á aldrinum fimmtán ára til fertugs.”

27 dánir undir fertugu á árinu

Landlæknir hefur nú að minnsta kosti 30 lyfjatengd andlát til skoðunar, langflest vegna sterkra morfínskyldra verkjalyfja, svonefndra ópíóíða. Sé sjúkragrunnur Vogs skoðaður, hafa 27 fyrrverandi sjúklingar, allir undir fertugu, dáið á árinu.  

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir að þó banamein sé ekki þekkt, sé líklegt að fíknin hafi dregið þau til dauða. 

„Við vitum ekki út af hverju þau dóu, það geta hafið verið slys, sjálfsvíg eða sjúkdómar, en það er ekki hægt að horfa framhjá því að þessi sjúkdómur okkar hlýtur að eiga einhvern hlut að máli,” segir Valgerður. 

„Ef þú tekur fíknisjúkdóma og berð þá saman við aðra geðsjúkdóma hjá fólki á þessum aldri, þá eru fíknisjúkdómarnir svo miklu miklu algengari og miklu, miklu banvænni,” segir Kári.  

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, segir misnotkun lyfja sífellt færast í aukana. „Þau virðast ekki hafa hugmynd um hvað þessi lyf eru ofboðslega hættuleg,” segir María. 

Banvæn lyf

Ópíóíðar eru mjög ávanabindandi og ofskömmtun er banvæn. 

„Fólk sofnar ekki bara og sefur úr sér vímu, heldur sofnar og svo sofnar öndunarstöðin og þá hættir fólk að anda og deyr,” segir Valgerður. 

Samhliða misnotkun ópíóíða hefur sprautufíkn aukist mikið, en mesta aukningin er í kókaínneyslu, mest meðal ungra karla. Götuverð kókaíns er um 18.000 krónur grammið og fara margir með nokkur grömm á dag. 

„Þeir eru oft úrvinda í nokkra daga eftir svona keyrslu, vakna svo upp og eru mjög órólegir, pirraðir og hvatvísir,” segir Valgerður. María tekur undir þetta. 

„Fólk sem er í alvarlegum fráhvörfum lýsir þunglyndi og kvíðaeinkennum, oft mjög miklum, og þá má ekki hrapa að þeirri ályktun að viðkomandi sé þunglyndur.”

Algengasti geðsjúkdómurinn

Oft er þó fylgni á milli fíknar og annarra geðsjúkdóma, en samspilið er flókið. Kári segir langflesta fíkla ekki hafa aðra undirliggjandi geðsjúkdóma. 
„Geðklofi, þunglyndi, kvíðaraskanir og svo framvegis. Þó að þú leggir þær allar saman þá efast ég um að þær kæmust í hálfkvist við þann vanda sem steðjar að okkur frá fíknisjúkdómum,” segir hann. „Það er svo hræðilegt að sjá ungt fólk rústa sínu lífi á tiltölulega stuttum tíma og eiga kannski aldrei leið til baka. Deyja af of stórum skammti af fíknilyfjum.”