
Fiðrildastofnar hrundu eftir gosið
Rannsakað fiðrildi á þremur stöðum
Erling Ólafsson skordýrafræðingur hefur rannsakað fiðrildi á þremur stöðum í nágrenni Eyjafjallajökuls fyrir gosið í Eyjafjallajökli 2010 og hefur haldið því áfram síðan gosinu lauk. Ljósgildrur sem veiða fiðrildi eru við Tumastaði í Fljótshlíð og á tveimur stöðum undir Eyjafjöllum, við Rauðafell og Skóga. „Það sem gerist í eldgosinu var eiginlega algert hrun þessara mikilvægustu fiðrildastofna,“ segir hann og nefnir grasvefara sem dæmi um tegund sem hrundi gjörsamlega og hefur ekki náð sér á strik aftur.
Dumbygla í sókn
Grasvefari étur gras og eftir gos hefur annar nýr landnemi, dumbygla sem líka étur gras, sest að á svæðinu. Grasvefarinn gæti verið að tapa í baráttunni við hana. Sumir stofnar sem hrundu hafa hins vegar unnið sig upp aftur. „Sumar tegundir hafa ekki bara verið vinna sig upp heldur eru þær orðnar miklu öflugri heldur en þær voru fyrir gos og það eru fyrst og fremst tegundir sem lifa á trjám á Skógum,“segir Erling.
Barrvefari og fleiri trjáætur í uppsveiflu
Barrvefari er einn af þeim. Hann hrundi í gosinu en er núna kominn langt upp fyrir það sem hann var fyrir gos. Fyrir gos voru árlega 25 til 30 tegundir af fiðrildum á svæðinu en eftir gos milli 20 til 25. Fjöldi fiðrilda á Skógum er nú meiri en fyrir gos. „Það er vegna þess að þessar trjáætur eru í góðri uppsveiflu sem þetta er að gerast það eru fleiri fiðrildi þó að tegundir séu færri en þær voru fyrir,“ segir hann.