Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fíasól berst fyrir réttindum barna

Mynd:  / 

Fíasól berst fyrir réttindum barna

16.01.2019 - 18:36

Höfundar

Rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir hlaut í dag Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka, fyrir bókina Fíasól gefst aldrei upp. Kristín Helga segir þetta síðustu bókina um Fíusól en segir þó aldrei að vita hvað gerist.

Fíasól gefst aldrei upp er sjötta bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um Fíusól og í rökstuðningi dómnefndar segir að í þessari sjöttu bók um úrræðagóða ærslabelginn Fíusól sé lesandinn vakinn til umhugsunar um ýmis alvarleg málefni sem tengjast réttindum barna. „Umræða um siðferðileg álitamál er sett fram af barnslegri einlægni en um leið alvöru sem dýpkar undirtón sögunnar. Persónur bókarinnar eru ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur eru þær lifandi og margræðar rétt eins og heimur Fíusólar,“ segir í umsögn dómnefndar.

„Fyrsta bókin kom út 2004, bækurnar eru orðnar sex og síðasta bókin kom út 2010. Það eru því átta ár síðan hún lét sjá sig síðast. Þá var Fíasól sjö ára en nú er hún orðin tíu ára, þannig að hún eldist hægt,“ segir Kristín Helga en aðspurð hvort við fáum að fylgja Fíusól í framhaldsskóla segir Kristín að hún geti nær lofað að það muni ekki gerast. „Þetta verður ekki Fíasól á framabraut eða að hún breytist í Nansý eða Öddu. Þó er það nú svo að þrátt fyrir að ég hafi sagt að sjötta og síðasta bókin um Fíusól væri komin út, að þá veit maður aldrei. Maður lýgur að sjálfum sér í sífellu og kannski að maður detti í aðra bók,“ segir Kristín Helga höfundur Fíusólar.

Í bókinni Fíasól gefst aldrei upp stofnar Fíasól björgunarsveit sem berst fyrir réttindum barna, glímir við tuddana í bekknum og spilar stuðbolta. „Þetta var annars tilkomið af því ég átti uppsafnaðan haug af sögum sem pössuðu bara fyrir Fíusól. Grunnhugmyndina að bókinni fékk ég frá manneskju sem mér stendur nærri en hún kærði foreldra sína sem barn, fyrir umboðsmanni barna, vegna þess að henni þótti foreldrarnir of afskiptasamir vegna sumarstarfsinnkomunnar. Hún klagaði í umboðsmann barna og úr varð eitthvað þóf og mér fannst tilvalið að Fíasól gerði slíkt hið sama og skoðaði þá í leiðinni réttindi barna. Þar með hefst samstarf Fíusólar og umboðsmanna barna,“ segir Kristín Helga sem átti gríðargóð samskipti við Salvöru Nordal umboðsmann barna í tengslum við skrif bókarinnar.

Kristín Helga hefur lengi látið sig bókaútgáfu varða og er fyrrum formaður Rithöfundasambandsins en hvernig finnst henni staða bókaútgáfu og almenns læsis nú? „Það eru allir á tánum og þurfa að vera. Það er mjög mörg góð verkefni í gangi og útgáfan núna fyrir þessi jól var alveg dásamleg,“ segir Kristín og vill þó ítreka að það þurfi að gera gott betur. „Það er á brattann að sækja og við finnum það öll. Um leið og við viljum að börnin lesi þá er svo margt sem áreitir. Börnin lesa frekar ef þau sjá að lesið er á heimilinu. Svo megum við ekki svelta skólabókasöfnin, það verður að vera nægur bókakostur. Það er eitthvað sem við höfum bent á, að stjórnvöld setji sér stefnu í bókainnkaupum fyrir bókasöfnin. Að það sé nægur aðgangur að nýjum bókum alls staðar. Þetta er það sem skólastjórnendur og kennarar til dæmis kvarta undan, það vantar lesefni,“ segir Kristín Helga nýbakaður handhafi Fjöruverðlauna í flokki barna- og unglingabóka, fyrir bókina Fíasól gefst aldrei upp.

Viðtal við Kristínu Helgu Gunnarsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 má heyra með því að smella á myndina efst.