Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ferðir nýs skips gætu frestast til næsta árs

06.09.2018 - 10:26
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Stjórnarmenn í félaginu sem sér um rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju telja að halda verði vel á spilunum ef takast á að afhenda ferjuna um miðjan nóvember eins og nú er stefnt að. Þeir telja að allt eins megi búast við frekari seinkunum og jafnvel fari nýja ferjan ekki að sigla milli lands og eyja fyrr en eftir áramót.

Þetta kemur fram í minnispunktum frá Grími Gíslasyni, stjórnarformanni Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. sem lagðir voru fyrir fund bæjarráðs Vestmannaeyja í gær. Hann og Páll Guðmundsson stjórnarmaður fóru í síðustu viku í skipasmíðastöðina í Póllandi þar sem unnið er að smíði nýs Herjólfs. Niðurstaða þeirra af ferðinni voru efasemdir um að tækist að skila ferjunni á áætluðum tíma.

Smíði ferjunnar og afhending hefur þegar frestast nokkrum sinnum, bæði vegna tafa í verksmiðjunni og breytinga á skipinu. Þegar samið var um smíðina í janúar í fyrra átti að afhenda ferjuna 20. júní í sumar.

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri fór yfir fund sem hún átti með Vegagerðinni fyrir mánaðamót þar sem greint var frá seinkuninni á afhendingu ferjunnar. Hún sagði að þar hefði komið fram það mat Vegagerðarinnar að enn frekari seinkun gæti orðið á afhendingu skipsins. Staðan á Landeyjahöfn væri þó góð og áætlað að hefja dýpkun seinni partinn í september.

Í minnispunktum stjórnarformannsins til bæjarráðs kemur  einnig fram að stefnt sé að því að ráða framkvæmdastjóra í næstu viku og að fjöldi umsókna hafi borist um aðrar stöður sem auglýstar hafa verið hjá fyrirtækinu. Þá er í gangi frumvinna vegna næstu skrefa við endurnýjun bókunarkerfis og gerð skírteina og vottorða er í vinnslu og miðar vel áfram, að sögn Gríms stjórnarformanns. Hann segir líka gott samstarf við Vegagerðina um eftirlit starfsmanna Vestmannaeyjaferjunni Herjólfs ohf. með smíðinni og að fyrstu drög að öryggismönnun skipsins liggi fyrir.