Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ferðatími milli starfsstöðva teljist vinnutími

27.11.2017 - 17:44
epa000258035 Police arrive at the Munch Museum in Oslo on Sunday, 22 August 2004. Edvard Munch's famous painting The Scream and other tableaux were stolen from the Norway art museum today.  EPA/Junge, Heiko NORWAY OUT
 Mynd: EPA - SCANPIX
EFTA-dómstóllinn úrskurðaði í dag að menn eru í vinnunni á meðan þeir ferðast frá einni sinni starfsstöð til annarrar starfsstöðvar fari vinnuveitandi fram á ferðirnar.

Með dóminum veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit um spurningar frá Hæstarétti Noregs varðandi túlkun á hugtakinu vinnutími í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins. 

Málið sem til umfjöllunar var snerist um starfsmann lögreglustöðvar í Noregi sem á árunum 2005 til 2014 var einnig í sérstöku viðbragðsteymi í lögregluumdæminu. Verkefni hans fólust meðal annars í því að bregðast við hættuástandi með vopnavaldi og að veita lögreglufylgd. Í störfum sínum fyrir viðbragðsteymið gat komið fyrir að farið væri fram á að hann mætti á aðrar starfsstöðvar innan umdæmisins, í eins til þriggja klukkutíma akstursfjarlægð.

Norska ríkið hafði komist að þeirri niðurstöðu að maðurinn ætti rétt á frítíma eða peningagreiðslu en að aksturstíminn teldist ekki til vinnutíma. Lögreglumaður lét reyna á þessa flokkun fyrir dómstólum í Noregi.

Hæstiréttur lagði þrjár spurningar fyrir EFTA-dómstólinn sem snerust efnislega um það hvort sá tími sem það tæki starfsmann, sem að beiðni vinnuveitanda þyrfti að ferðast til og eða frá annarri starfsstöð en þeirri sem hann ynni venjulega, utan venjulegs vinnutíma, fæli í sér vinnutíma í skilningi tilskipunarinnar.

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ferðatíminn teldist til vinnutíma vegna þess að starfsmaðurinn þurfti að ferðast til þess að framkvæma ákveðið verk fyrir vinnuveitandann og þurfti að hlíta fyrirmælum vinnuveitanda á meðan á ferðatíma stóð. Þá væri það málinu óviðkomandi hversu oft vinnuveitandi sendi starfsmann í verkefni utan venjulegrar starfsstöðvar hans nema í þeim tilvikum þar sem álykta mætti að hann hefði með því fengið nýja fasta starfsstöð. Ef starfsmanni væri gert að inna verkefni af hendi utan fastrar starfsstöðvar yrði ferðalagið til og frá vinnustaðnum að teljast eðlilegur hluti af vinnu hans, jafnvel þótt ferðalagið ætti sér stað utan venjulegs vinnutíma.

EFTA-dómstóllinn taldi því að tími utan venjulegs vinnutíma, sem teldist nauðsynlegur til að ferðast til og frá starfsstöð annarri en fastri starfsstöð, í því skyni að inna af hendi störf eða skyldur í þágu vinnuveitenda síns, fæli í sér vinnutíma. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV