Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ferðaþjónustufyrirtæki agnúast út í ráðherra

20.04.2017 - 10:42
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Nokkur smærri ferðaþjónustufyrirtæki hafa sent fjárlaganefnd umsagnir við fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra. Í umsögnunum gagnrýna þau fjármálaráðherra fyrir fyrirhugaða breytingu á virðisaukaskattkerfinu og segja að sterk staða krónunnar hafi gert þeim lífið leitt.

Í þessum hópi er ferðaþjónustufyrirtæki Ívars Ingimarssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í knattspyrnu.  Í umsögn sinni rekur hann hvernig ferðaþjónustan Óseyri hefur smám saman verið að vaxa og dafna með rekstri gistihúsanna Olgu og Birtu fyrir austan.

Ívar segir að fyrirtækið hafi fyrir tveimur árum ráðið til sín heilsársstarfsmann þar sem þau hafi séð fram á töluverða aukningu yfir veturinn. „En þrátt fyrir að sú aukning hafi gengið eftir gengur vetaropnunin á sumarinnkomuna en með von um betri dreifing ferðamanna út á landi sá maður fram á að þetta gæti borið sig yfir veturinn.“

Sterk staða krónunnar hafi sett strik í reikninginn og fyrirhuguð ákvörðun um að hækka vaskinn geri hann ekki bjartsýnan á framhaldið.  Þau sjái ekki fram á að geta velt þessari hækkun út í verðið og þá sé ekki mikið eftir í rekstrinum. „Ef vaskhækuninn gengur í gegn sjáum við ekki fram á annað en við munum segja upp heilsársstarfamanni okkar og loka 4-5 mánuði á ári, því þessi tími er ekki að skila okkur neinu, en það var þess virði að hafa opið til að reyna að fá ferðamenn inn á svæðið og í von um að fjöldi þeirra austur myndi aukast.“

Svipaða sögu hefur Friðrik Árnason, hótelstjóri á Hótel Bláfelli í Breiðdalsvík, að segja í sinni umsögn.  Það vanti enn þá töluvert upp á til að láta ferðaþjónustuna ganga allt árið en lenging á tímabilinu hafi gert það að verkum að hann þurfi fleira starfsfólk og sé í dag með 6 til 8 manns á heilsársgrundvelli. 

Friðrik segist hafa verulegar áhyggjur af stöðu krónunnar, hann hafi til að mynda aldrei séð eins mikið af afbókunum fyrir sumarvertíðina og ástæðan sé alltaf sú sama - gengi krónunnar.  Útspil með hækkun virðisaukaskattsins muni eyðileggja þá uppbyggingu sem átt hafi sér stað og skapa atvinnuleysi í staðinn. Þau hafi fjárfest mikið á undanförnum árum bæði í gistingu og veitingaaðstöðu. 

Pétur Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Hótel Reynihlíðar í Mývatnssveit, gerir í umsögn sinni alvarlegar athugasemdir við hækkun virðisaukaskattsins. Verði hækkunin að veruleika sé nauðsynlegt að fella gistináttskatt úr gildi.„Ferðaþjónustan getur ekki búið til framtíðar við það óvissuumhverfi að ríkisvaldið leggi á skatta og gjöld eftir geðþótta hverju sinni án þess að afleiðingarnar séu greindar og án samráðs við aðila innan greinarinnar.“

Hækkun virðisaukaskattsins hefur mælst misjafnlega fyrir. Fjórir af sex nefndarformönnum hjá Sjálfstæðisflokknum hafa til að mynda lýst því yfir að þeir muni ekki styðja þessa tillögu.  „Ég tel þetta óheillavænlegt skref og muni hafa mest áhrif á minni og meðalstór fyrirtæki úti á landsbyggðinni sem hafa verið að fjárfesta mikið og gjörbreyta atvinnustigi í þorpum og bæjum úti um land. Og þetta mun rústa þeim fyrirtækjum,” sagði Valgerður Gunnarsdóttir, formaður umhverfis-og samgöngunefndar.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði menn hreinlega vera í sjokk. „„Við erum langt frá því að vera ánægð með þetta og við bara teljum að þetta sé reiðarslag fyrir ferðaþjónustuna.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV