Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ferðaþjónustan þolir samdrátt í eitt ár

02.02.2019 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Ferðaþjónustan getur mætt samdrætti í komu ferðamanna til Íslands í eitt ár. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Ritstjóri túrista.is spáir meiri samdrætti en spá Isavia gerir ráð fyrir, og að árstíðarsveiflur aukist. Á sama tíma ætlar Icelandair að leggja aukna áherslu á flug til Þýskalands, og hefja flug til Düsseldorf.

Farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll fækkar um tæplega 9% í ár, samkvæmt farþegaspá Isavia sem var kynnt í vikunni. Mestu munar um fækkun skiptifarþega, sem fara aldrei út úr flugstöðinni, en samkvæmt spánni fækkar þeim sem fara inn og út úr landinu aðeins um 2%.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að spáin hafi ekki komið á óvart.

„Það sem má segja að fyrirtækin innanlands geti tekið jákvætt út úr þessu er að það sé minni samdráttur í „til og frá“ ferðamönnum, það er að segja ferðamönnum með áfangastaðinn Ísland. Það skiptir til dæmis máli fyrir hótelin, afþreyingarfyrirtækin og fleiri. Við í ferðaþjónustunni þolum væntanlega eitt ár þar sem við stöndum í stað eða minnkum örlítið. En við erum samt bjartsýn á það til langrar framtíðar að við verðum með svipaðan vöxt og í alþjóðlega samhenginu, þrjú til fimm, sex prósent.“

Það er búið að fjárfesta mikið í ferðamannaiðnaði hér á landi, getur tvö prósent samdráttur haft slæmar afleiðingar?

„Hann getur haft þær afleiðingar að möguleikar fyrirtækjanna á tekjuöflun minnka.“

Í því samhengi bendir Jóhannes á að um helmingur kostnaðar fyrirtækja í ferðaþjónustu sé launakostnaður og því geti miklar launahækkanir í kjarasamningum bitnað á þeim, sérstaklega ef tekjur dragast saman á sama tíma.

Auknar árstíðarsveiflur

Kristján Sigurjónsson, ristjóri túrista.is, reiknar með meiri samdrætti en kemur fram í spá Isavia.

„Sérstaklega frá Bandaríkjunum, því þar er samdrátturinn langmestur og Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennasti hópurinn á Íslandi. Og nú er úrvalið miklu minna næsta sumar. Þannig að þar verður samdrátturinn sennilega mestur. Og svo sér maður líka í þessari spá að eitthvað af erlendu flugfélögunum munu draga úr Íslandsflugi fyrr en venjulega. Venjulega hætta flest í lok október en nú virðast mörg vera að færa sig fram í september. Og það eru neikvæð teikn, og sérstaklega að árstíðarsveiflurnar verða jafnvel meiri, því þeir spá því að ferðamönnum fjölgi yfir sumarið en fækki yfir veturinn. Og það er ekki sú þróun sem við hefðum viljað sjá,“ segir Kristján.

Þrátt fyrir spá Isavia hefur Icelandair lýst því yfir að félagið stefni að 10% vexti á þessu ári. Á ferðakaupstefnu í Laugardalshöll í gær tilkynnti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að félagið ætli að hefja flug til Düsseldorf í Þýskalandi í apríl, auk þess sem félagið ætlar að fljúga oftar til Frankfurt og München.

„Við sjáum þetta sem sterkan markað, bæði á markaðnum til Íslands og síðan yfir hafið til þess að styrkja jafnvægið í leiðarkerfinu til Ameríku. Þannig að þetta er bara sterkur markaður, bæði til Íslands og svo áfram,“ segir Bogi.