Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ferðaþjónustan orðin langstærsta greinin

02.03.2015 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Ferðaþjónustan er orðin langstærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin hér á landi. Tekjur íslenskra fyrirtækja af erlendum ferðamönnum námu í fyrra rúmlega 300 milljörðum, tæpri milljón á hvern Íslending, og voru rúmlega fjórðungi meiri en tekjur af sjávarútvegi.

Útflutningur vegna ferðalaga jókst um 27 milljarða milli ára. Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar segir þetta mikið fagnaðarefni.  „Það er afar ánægjulegt að það sé komin meiri fjölbreytni í atvinnulífið. Við erum komin með þessa viðbótar undirstöðu atvinnugrein og það munar um það. Það að hún skili þessum tekjum fyrir síðasta ár er ánægjulegt en ekki síður mikilvægt að horfa til þess að við horfum til frekari vaxtar og eflingar greinarinnar,“ segir Helga.  

Hún telur gríðarleg tækifæri felast í greininni og segir að nú þurfi að standa saman, horfa á stóru myndina og efla innviðina. Hún hefur litlar áhyggjur af bólumyndum. „Ég get ekki tekið undir það. Ef við horfum á þetta á heimsvísu sjáum við að ferðamönnum er alltaf að fjölga um allan heim og sér í lagi í Norður-Evrópu.“ 

Stærstu flugfélögin eiga mikinn þátt í þessari upphæð en þjónustuútflutningur vegna flutninga erlendra farþega með flugi var 144 milljarðar, tæplega helmingur útflutnings ferðaþjónustu. 

Þess má geta að 300 milljarðar eru tekjurnar sem fengist hafa af erlendum ferðamönnum. Tekjur af íslenskum ferðamönnum eru ekki teknar með í reikninginn. Böðvar Þórisson, framkvæmdastjóri fyrirtækjatölfræðisviðs Hagstofunnar, segir að ekki liggi fyrir nýlegt mat á tekjum vegna þeirra en unnið sé að slíku mati.