Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ferðaþjónustan gæti ekki fellt bankana

Mynd: RÚV / RÚV
Fjármálakerfið íslenska stendur ekki og fellur með ferðaþjónustunni. Einungis um 7% af útlánum viðskiptabankanna tengjast henni. Þetta segir Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands. Samfélagsleg áhrif þess, verði niðursveifla í ferðaþjónustu, yrðu hugsanlega mun meiri. Starfsfólk Seðlabankans fylgist náið með ferðaþjónustunni og útlánum banka til ferðaþjónustufyrirtækja, nánar en með öðrum atvinnugreinum.

„Við viljum alltaf fylgjast með hlutum ef þeir eru að gerast mjög hratt því það er skólabókardæmi um eitthvað sem getur farið úrskeiðis þegar hlutir gerast mjög hratt. Þess vegna höfum við séð sérstaka ástæðu til þess að fylgjast vel með ferðamannageiranum. Það er svolítið erfitt líka að meta hvort útlán séu til ferðamannageirans því þau koma fram í fleiru en hótelbyggingum. Þau koma fram í lánum til byggingageirans og þá er ekki alltaf skýrt hvort það er þetta hótel eða þessi íbúðabyggð. Það er svolítið erfitt að halda utan um þetta en við erum í mjög góðri samvinnu við bankana og þeir flokka þetta fyrir okkur eftir bestu getu."

Segir Harpa.

Sprenging í nýskráningum byggingafyrirtækja

Síðastliðin ár hefur orðið mikil aukning í nýskráningum fyrirtækja í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð. Tölur Hagstofunnar sýna að árið 2014 voru 223 slík fyrirtæki nýskráð, 292 árið 2015 og 346 árið 2016. Búist er við því að 2,2 milljónir ferðamanna komi til Íslands á þessu ári, 26% fleiri en í fyrra. Ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsgreinin. Það hefur verið mikil uppbygging í hótelgeiranum. Samkvæmt nýlegri úttekt DV eru 22 hótelverkefni í burðarliðnum á höfuðborgarsvæðinu. Nýting gistirýma er þar í hæstu hæðum, var um 86% í fyrra. Það er því ljóst að eftirspurnin er til staðar. En hversu geyst má fara? Hvar liggja mörkin milli vanfjárfestingar og offjárfestingar? Hver gætu áhrif samdráttar orðið? 

Bankarnir álagsprófaðir reglulega

Í Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans, sem kom út í október, er að finna álagspróf sem varpar ljósi á það hvaða áhrif samdráttur í ferðaþjónustu hefði á bankakerfið. Dregin er upp svokölluð áfallssviðsmynd, könnuð hver áhrifin hefðu verið ef ferðamönnum hefði ekki fjölgað um 40% árið 2016, eins og raunin var, heldur fækkað um 40% frá árinu á undan. Þeir hefðu þá verið svipað margir og þeir voru árið 2012. Þetta hefði samkvæmt Seðlabankanum valdið 10% samdrætti í útflutningi og 8% atvinnuleysi. Það er álíka hátt hlutfall atvinnuleysis og á árunum eftir hrun. 

Sviðsmyndin er ákveðið álagspróf, þau eru gerð reglulega en misjafnt er hvaða áhættuþættir eru teknir fyrir hverju sinni. Harpa segir að tilgangur slíkra prófa sé að kanna hversu vel bankar séu í stakk búnir til þess að mæta óvæntum og ólíklegum áföllum. 

„Við förum yfir hvað er að gerast og lítum til þess hvað er helst að gerast í dag sem gæti valdið áhættu í framtíðinni oft er það þannig með hluti sem gerast hratt að það verður einhver áhætta af þeim síðarmeir. Þess vegna varð ferðaþjónustan fyrir valinu. Þar eru hlutir að gerast hratt, þetta er ný atvinnugrein og mikil uppbygging í henni." 

En hversu líklegt er talið að það verði 40% samdráttur í greininni? Harpa segir erfitt að segja til um það. Enn sjáist engin merki um samdrátt í ferðaþjónustu en það geti alltaf orðið viðsnúningur. En hvers vegna var miðað við 40% samdrátt, ekki 80% samdrátt til dæmis. Harpa segir að hið fyrrnefnda hafi þótt raunhæfara en ekki sé hægt að útiloka að eldgos eða önnur stórkostleg áföll leiði til meiri samdráttar.

Gervihnattamynd af Mýrdalsjökli.
 Mynd: NASA
Katla

Niðursveiflan gæti orðið skyndileg. Segjum til dæmis að Katla tæki upp á því að gjósa með tilheyrandi röskunum á flugsamgöngum. Það gæti einnig valdið skyndilegri niðursveiflu ef hækkun olíverðs veldur erfiðleikum í flugrekstri og einhver flugfélög hætta að fljúga hingað. 

„Þetta getur líka gerst hægt ef krónan heldur áfram að styrkjast eins og undanfarið. Verðáhrifin af því gætu hægfara dregið úr ferðaþjónustunni."

Þriðja hvert nýtt lán til ferðaþjónustufyrirtækja

Í fyrra rann eitt af hverjum þremur nýjum lánum Íslandsbanka til ferðaþjónustufyrirtækja, árið 2015 átti þetta við eitt lán af hverjum fimm. Þetta kemur fram í ársskýrslu bankans sem birt var nýlega. Harpa segir þetta nokkuð stórt stökk en að það sé í sjálfu sér eðlilegt að vöxtur greinar og nýjar lánveitingar til fjárfestinga í henni fylgist að. Seðlabankinn hefur virkt eftirlit með lánveitingum bankanna til ferðaþjónustufyrirtækja. 

„Við erum farin að kalla eftir gögnum um lán til ferðageirans ársfjórðungslega því við teljum fulla ástæðu til að fylgjast vel með þessu."

Bankarnir réðu við að tapa 70 milljörðum á þremur árum

Harpa hefur þó ekki miklar áhyggjur af stöðunni eins og hún er í dag og segir ljóst að ferðaþjónustan stefni bankarekstri ekki í voða. 

„Enn sem komið er þá eru bankarnir ekki að lána svo mikið út til þessa geira. Þetta er í kringum 13% af heildarútlánum til fyrirtækja, í kringum 7% af heildinni hjá þeim. Á meðan útlán til ferðaþjónustufyrirtækja eru ekki stærri en þetta veldur þetta ekki beinlínis ógn en við fylgjumst mjög náið með þessu, hvort of stór biti af kökunni sé að fara til ferðageirans."

En hvenær verður bitinn of stór? Harpa segir erfitt að segja til um það.

„Það fer eftir því hvernig verkefnin eru og hvaða möguleikar eru á að afla tekna með öðrum hætti. Það er ekki hægt að setja alveg verðmiða á það eitt og sér."

Staðan er sú að þrátt fyrir að ferðaþjónustan hyrfi einn daginn myndu bankarnir lifa af. Þjóðarskútan halda sjó. 

„Í rauninni já en það verður auðvitað ákveðinn samdráttur og í áfallsmyndinni sem við prófuðum síðasta haust var verulegt högg á bankakerfið, í kringum 70 milljarða tap á þriggja ára tímabili sem er gífurlegahá tala en bankakerfið stendur bara mjög sterkt í dag, það er ekki líku saman að jafna og fyrir fjármálaáfallaið,  þeir eiga meira laust fé og eiginfjárhlutföllin eru há." 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Meiri áhætta fyrir samfélagið en fjármálakerfið

Harpa bendir á að samfélagsleg áhætta tengd ferðaþjónustu sé hugsanlega meiri en áhætta tengd fjármálakerfinu. Til dæmis sé erfitt að átta sig á því að hve miklu leyti lífeyrissjóðir fjármagni uppbyggingu í greininni. 

„Það er í raun full ástæða til að skoða betur í hve miklum mæli hótelbyggingar og önnur ferðaþjónusta er fjármögnuð utan bankakerfisins því ef þetta er orðið stór hluti af eignum lífeyrissjóðanna gæti það orðið vandamál síðarmeir ef það fer að skerða réttindi vegna áfalla. Það er full ástæða til þess að fylgjast með þessu víðar en í bönkunum."

 

Segja Seðlabankann stefna fjöregginu í voða

Fólk í ferðaþjónustugeiranum hefur sumt gagnrýnt Seðlabankann, sagt hann stefna fjöreggi þjóðarinnar í voða með því að halda ekki aftur af styrkingu krónunnar. Verðin stíga, kortaveltutölur benda til þess að tekjur af hverjum ferðamanni hafi þegar dregist saman. Ferðaþjónustuaðilar hafa áhyggjur af orðsporshnekki og segja að neikvæð áhrif styrkingarinnar komi hugsanlega ekki fram fyrr en næsta sumar eða næsta vetur. Harpa bendir á að fleiri en Seðlabankinn geti haldið aftur af styrkingu krónunnar. 

„Það er álitamál hvort bankinn á að grípa inn í. Ef við ætlum að halda krónunni á föstu gengi þurfum við að kaupa meiri gjaldeyri. Það kostar líka og bankinn hefur líka verið gagnrýndur fyrir að kaupa of mikið og spurt hvort forðinn sé ekki orðinn nógu stór. Svo má nefna það að það eru aðrir hagstjórnaraðilar eins og ríkisstjórnin sem geta haft áhrif á þróun ferðamannageirans."