Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ferðaþjónustan fórnarlamb eigin velgengni

09.08.2018 - 19:32
Mynd: Skjáskot / RÚV
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður Samtaka atvinnulífsins, sagði í kvöldfréttum að ferðaþjónustan væri kannski fórnarlamb eigin velgengni. Hún hefði leitt til mikillar styrkingar krónunnar sem á móti hefði orðið til þess að ferðamenn dveldu skemur á landinu, eyddu fé með öðrum hætti og færu síður út á land.

Ásdís sagði að styrking krónunnar árin 2015 og 2016 væri að koma fram núna. „Ferðaþjónustan er kannski fórnarlamb sinnar eigin velgengni. Þá styrkingu sem verið hefur á gengi krónunnar má auðvitað fyrst og fremst rekja til þess vaxtar sem verið hefur í ferðaþjónustunni á undanförnum árum.“ Aðspurð hvort krónan myndi veikjast ef ferðamönnum fækkaði sagði Ásdís að þá myndi jafnvægi myndast í gengi hennar.

Gjörbreyting hefur orðið á stöðu ferðaþjónustunnar á síðustu árum. „Ferðaþjónustan var fyrir örfáum árum síðan lítil, krúttleg atvinnugrein. Nú er hún að skila alveg gífurlegum verðmætum til hagkerfisins, er orðin ein af okkar lykilatvinnugreinum.“

Eftir tugprósenta vöxt í ferðaþjónustu ár frá ári var vöxturinn aðeins fimm prósent það sem af er ári. „Það er fyrst núna sem við sjáum merki þess efnis að það er að hægjast hratt á þessum vexti,“ sagði Ásdís. Hún sagði áhyggjuefni að vöxturinn væri aðallega frá einu markaðssvæði, Bandaríkjunum. „Á meðan erum við að sjá að aðrir markaðir eru að dragast saman, eða ferðamenn frá öðrum löndum, og það er áhyggjuefni. Við viljum sjá vöxtinn frá dreifðari mörkuðum.“

Ásdís sagði vísbendingar um að vöxturinn í ferðaþjónustunni sé aðallega á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Vesturlandi. Önnur svæði landsins njóti síður góðs af. Þá hafi sterk króna áhrif á neyslu og dvalarlengd ferðamanna. „Þegar ferðamenn eru að dvelja hér í skemmri tíma er erfiðara fyrir þá að fara út á land.“