Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ferðast um landið á rafmagnsmótorhjóli

11.06.2018 - 09:38
Þýskur Íslandsunnandi ferðast nú um landið í tuttugasta og fyrsta skipti. Í þetta sinn kom hann á rafknúnu mótorhjóli og er viðbúinn því að þurfa að banka upp á hjá bændum til að sníkja rafmagn.

Norræna kemur til Seyðisfjarðar frá Danmörku, nú fjölgar hratt í ferjunni með hverri vikunni og ýmis sjaldséð farartæki frá Evrópu streyma inn á íslenska vegakerfið. Við hittum fyrir Þjóðverjann Uwe Reimann. Mótorhjólið hans lætur ekki mikið yfir sér en þetta er rafknúið Zero S-hjól sem nær 100 kílómetra hraða á 5,2 sekúndum. „Ég býst við miklum vindi, vonandi meðbyr því það eykur drægnina á rafhlöðunum. Vonandi verður drægnin á Íslandi um 120 til 130 kílómetrar en það veltur á því hve hratt ég ek. Það er kostur að hámarkshraðinn er 90 á Íslandi þannig að ég kemst ekki hraðar og það sparar orku,“ segir Uwe.

Hann hefur þegar lagt að baki rúmlega 1200 kílómetra frá Þýskalandi til Danmerkur þaðan sem ferjan fór og hefur skipulagt 3200 kílómetra ferðalag um Ísland. Hann ætlar að nýta hleðslustöðvar ON en þar geta erlendir ferðamenn reyndar ekki enn þá keypt hraðhleðslu. „Bara ef þú ert með íslenska kennitölu. Þannig að ég þurfi að skipuleggja þetta í gegnum vin. ON sagði mér að þeir væru að undirbúa að ferðamenn geti einnig notað þetta hleðslukerfi. Ég er kannski of snemma á ferðinni.“

Uwe kemur vopnaður tengiklóm af öllum tegundum og getur nýtt sér hleðslustöðvar þar sem ekki þarf að borga. Hann býst þó við að þurfa að leita á náðir þeirra sem búa við þjóðveginn ekki síst bænda.

Hann kom fyrst til Íslands árið 2003 til að sjá sólmyrkva, heillaðist af landslaginu á og hefur komið við hvert tækifæri síðan, oftast á jeppa. Hann býst við því að það varði allt önnur upplifun að aka um landið á rafhjóli. „ Það er mjög hljóðlátt að aka því ég framleiði ekki hávaða og ég framleiði ekki mengun svo að það er mjög friðsamt að aka þannig.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV