Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferðamönnum komið á brott með þyrlu

17.02.2019 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Þyrlur voru sendar til að koma kanadískum ferðamönnum úr strandhýsum sínum í Haítí þar sem þeir hafa setið fastir vegna óeirða í ríkinu. Þaðan voru þeir fluttir á alþjóðaflugvöllinn í Port-au-Prince, þar sem þeir fóru um borð í flugvél sem flaug þeim heim til Kanada. Alls voru kanadísku ferðamennirnir 131 talsins. 

AFP fréttastofan hefur eftir einum ferðamannanna að það hafi reynst nauðsynlegt að sækja þá í þyrlu, þar sem vegirnir eru óöruggir. 

Kanadísk stjórnvöld vöruðu fólk við ferðalögum til Haítí, eftir að sendiráði ríkisins í landinu var lokað tímabundið vegna óeirðanna. Óeirðirnar hafa staðið yfir síðan 7. febrúar. Minnst sjö hafa látið lífið í mótmælunum, sem hafa lamað daglegt líf í stærstu bæjum og borgum landsins. Mótmælendur eru fokreiðir yfir vaxandi verðbólgu og meintum þjófnaði á nærri tveimur milljörðum bandaríkjadala sem veittir voru til hjálparstarfa úr olíusjóði Venesúela. Þess er krafist að forsetinn Jovenel Moise víki úr embætti.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV