Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ferðamenn skila sér ekki í laugarnar

19.04.2015 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Erlendum ferðamönnum hefur ekki fjölgað í sundlaugum höfuðborgarsvæðisins í takt við fjölgun ferðamanna almennt síðustu tíu ár. Forstöðumaður Höfuðborgarstofu segir að erlendir ferðamenn viti hreinlega ekki að hér sé hægt að fara í heitar laugar yfir háveturinn.

Erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands hefur fjölgað um 154 prósent síðustu tíu ár. Samkvæmt könnun höfuðborgarstofu hefur sú fjölgun ekki skilað sér í sundlaugarnar.

Laugarnar eiga að þola aukið álag

Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, segir ástæðuna tvíþætta. „Það er kannski tvennt sem geti verið þröskuldurinn fyrir erlendu gestina að það er annars vegar það að að fólk kveikir hreinlega ekki á því að það sé hægt að fara í heitar laugar hérna yfir háveturinn hérna uppi við norðurpól. Svo er það hin sem er svona menningarlegur bakgrunnur okkar, við gerum kröfu um hreinlæti í laugunum og fólk á kannski erfitt með það að afklæða sig og baða sig fyrir framan aðra þó þeir séu af sama kyni. Við erum að reyna að koma þessu til skila því sundlaugarnar eru eins og sögurnar okkar, þetta er náttúrulega aldagömul hefð. En það sem við rekum okkur líka á í þessu er að þeir sem þó koma þeir virðast koma aftur og aftur sem er þó góðs viti,“ segir Einar. 

Sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu ætla að kynna sameiginlega sundlaugar svæðisins fyrir erlendum ferðamönnum með það að leiðarljósi að dreifa fjöldanum svo laugarnar þoli álagið. „Já svo er það svona eins og önnur þolmörk ferðaþjónustunnar, bæði náttúruleg og samfélagsleg, það þarf bara að fylgjast með þeim. Þetta þarf að sjálfsögðu að vera í takt við þá sem eru að nota sundlaugarnar af fullum krafti.“