Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferðamenn koma ekki til Eyja án Landeyjahafnar

08.02.2019 - 19:58
Ferðamenn koma ekki til Vestmanneyja þegar Landeyjahöfn er ófær. Þetta segja Eyjamenn. Íbúar binda miklar vonir við dýpkunarbúnað og nýja ferju og segja samfélagið gjörbreytast þegar siglt er um Landeyjahöfn. Samfélagið í Vestmannaeyjum tekur stakkaskiptum þegar Landeyjahöfn er opin.

Sækja nýja Herjólf í lok mánaðarins 

Langþráð bið Vestmannaeyinga eftir nýrri ferju er senn á enda. Sú gamla, Herjólfur, er orðin 26 ára og löngu komin á tíma. En sú nýja á að komast í gagnið eftir tvo mánuði.

Gísli Valur Gíslason, skipstjóri í Herjólfi, segir að nýja ferjan breyti miklu. Það er auðveldara að stýra henni, hún ristir grynnra og er mun betri fyrir farþegana. Hann fer til Póllands og sækir ferjuna í lok þessa mánaðar. Eftir að ákveðið var að rafvæða nýja Herjólf fór verðmiðinn úr 3,6 milljörðum í í 4,4. 800 milljóna aukafjárveiting er á samgönguáætlun vegna þessa. 

Óháð úttekt gerð á Landeyjahöfn

Í Landeyjahöfn á að setja fastan dýpkunarbúnað, sem kostar annað eins, 730 milljónir. Vonir standa til að höfnin verði betur fær fyrir nýja skipið, þó að óvissa ríki um það enn. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, fagnar því að stjórnvöld hafi orðið við beiðni um að láta gera óháða úttekt á Landeyjahöfn vegna vandræðanna þar.

Landeyjahöfn breytir öllu

Það tekur þrjá klukkutíma að sigla frá Þorlákshöfn til Eyja, en rúman hálftíma frá Landeyjahöfn. Vestmannaeyingar sammælast um að samfélagið taki algjörum stakkaskiptum þegar Landeyjahöfn er fær. 

„Það breytir öllu. Ég þekki það úr ferðageiranum að ferðamenn koma ekki til Vestmannaeyja nema það sé siglt í Landeyjahöfn,” segir Magnús Bragason, eigandi Hótel Vestmannaeyja. „Við fáum bókanir á hótelið, fólk vill koma til Vestmannaeyja, en það afbókar daginn sem það á að koma þegar það áttar sig á því að það er að fara að sigla í þrjá tíma.”

Fáir koma í gegn um Þorlákshöfn

Jackie Cardoso, verslunareigandi í Eyjum, tekur í sama streng. „Við erum að reyna að fá Íslendinga til að koma og upplifa Vestmannaeyjar yfir veturinn, en með Þorlákshöfn. Hver getur það?”

Aðrir Vestmannaeyingar sem fréttastofa ræddi við höfðu sömu sögu að segja. Nú eru miklar vonir bundnar við nýju ferjuna og að Landeyjahöfn geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi. „Það er gríðarlegur munur á samfélaginu ef Landeyjahöfn er opin. Bæjarbragurinn er bara allt annar,” segir Arnar Ingi Ingimarsson, íbúi í Vestmannaeyjum. „Við bindum miklar vonir við nýju ferjuna og höfnina.”