Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ferðamenn í stórhættu á gljúfurbarminum

27.02.2015 - 07:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Helgi Guðmundsson, leiðsögumaður, varð í gær vitni að því þegar hópur ferðafólks fór út af göngustígnum við Gullfoss, sem er afmarkaður með snúru, og fram á gljúfurbarminn við fossinn.

Þeir skeyttu engu um viðvörunarskilti og klofuðu yfir keðju sem strengd hafði verið fyrir göngustíginn vegna slysahættu. Helgi segir ljóst að fólkið hafi verið í stórhættu. Það berst stöðugt úði frá fossinum og við það myndast íshella á gljúfurbarminum sem hallar niður að árgljúfrinu. Það er því auðvelt að missa fótana og gerist það er líklegt að viðkomandi renni ofan í gljúfrið. Helgi segir að við þetta megi bæta að oft séu snjóhengjur við gljúfrið sem kunni að springa undan fótum  manna þegar minnst varir. Oft leggi svo vindstrengi eftir gljúfrinu og snarpar vindhviður gætu feykt ferðalöngum ofan í gljúfrið. „Ef eitthvað fer úrskeiðis má segja að einber guðs mildi skeri úr um líf eða dauða og ekkert nema gæfan nær að skilja ferðalanginn frá árgljúfrinu,“ segir Helgi.  Hann tók þessar myndir á vettvangi.