Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ferðamenn fengu tiltal við Jökulsárlón

18.04.2016 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi - Facebook
Lögreglan á Suðurlandi þurfti í gær að hafa afskipti af hópi ferðamanna við Jökulsárlón um helgina eftir að tilkynnt var að fólk hefði hætt sér út á ísinn.

Í tilkynningu frá lögreglu á Facebook kemur fram að sjónarvottar hafi sagt að 15 til 20 manns hafi farið út á lónið. Flestir hafi verið komnir á fast land þegar lögreglu bar að en fjórir voru enn úti á ísnum. Þeir hafi allir komist heilu og höldnu á land þar sem þeir voru teknir tali. 

Lögreglan segir að aðstæður á Jökulsárlóni í gær hafi verið þannig að íshröngl og smájakar hafi safnast sunnarlega á lóninu á móts við þjónustubyggingu og bílastæði. „Kröftugt innfall var inn í lónið og talsverð hreyfing á ísnum sökum þess. Ísinn var því mjög ótryggur og opnar vakir á milli og hefði getað orðið erfitt um vik með björgun ef fólk hefði lent í ofan í,“ segir í tilkynningunni.

Lögreglan beinir því til fólks að virða merkingar við Jökulsárlón þar sem varað er við því að fara út á ísinn.  Eins ætti fólk ekki að láta afskiptalaust ef það sér til fólks fara út á ísinn heldur láta vita svo hægt verði að grípa inn í og afstýra slysum. 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV