Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ferðamenn beinbrotna við Gullfoss

03.03.2016 - 18:37
Vísbendingar eru um að banaslysum ferðamanna hafi fækkað en minna alvarlegum slysum fjölgað. Tólf ferðamenn brutu bein í hálku við Gullfoss á þremur mánuðum. Mikilvægt er að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar, segir Jónas Guðmundsson, fulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur safnað upplýsingum um banaslys í ferðamennsku síðan 1997. Tölurnar ná yfir bæði erlenda og innlenda ferðamenn. Samkvæmt þeim hefur banaslysum fækkað frá árinu 2007 en árin 2013 og 2015 gætu verið undantekningar.

„Við höfum sterkar vísbendingar um það að það sé fækkun banaslysa í ferðaþjónustu og ferðamennsku,  2015 gæti verið undantekning, við vitum það ekki ennþá.“

Reynt hefur verið að bæta gæði og öryggi í ferðaþjónustunni frá árinu 2010. Komið var á fót upplýsingakerfi fyrir ferðamenn, Safe Travel, og einnig var Vakinn, gæða- og öryggiskerfi ferðaþjónustunnar, sett á laggirnar. 
Yfirleitt verða banaslys á ferðamönnum á þjóðvegum landsins eða uppi á hálendinu. Á síðustu 14 árum hafa nokkur banaslys orðið á ferðamannastöðum.  

 

„Ef við horfum t.d. á Suðurlandi, við erum með eitt banaslys við Jökulsárlón, tvö við Reynisfjöru, við erum með eitt við Sólheimajökul, svo reyndar á Þingvöllum nokkur í Silfru en þess utan eru  banaslys og alvarleg slys á ferðamannastöðunum ekkert svo algeng.“

 
Engin samræmd skráning er til á minna alvarlegum slysum sem verða í ferðamennsku en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur þeim fjölgað. 

„Ef við horfum bara á Gullfoss á síðasta ári þá vorum við með u.þ.b. eitt brot unliðsbrot, handleggsbrot, fótbrot eitthvað þessháttar, axlarbrot bara út af hálku við Gullfoss  á þriggja mánaða tímabili þannig að við vorum með 12 slys þar á þriggja mánaða tímabili.“ 
 
„Innviðir ferðamannastaða það þarf að byggja þá upp, setja upp palla brýr og svona. Það  þarf að setja mikið fé í vegakerfið svo þarf að auka fé í forvarnir og fræðslu.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV