Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ferðamanni bjargað af Bláfellshálsi

Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarfélagið Eyvindur
Sveit Björgunarfélagsins Eyvindar í Hrunamannahreppi kom í gærmorgun til bjargar erlendum ferðamanni sem hafði fest bíl í skafli á Kjalvegi. Ferðamaðurinn var á jepplingi sem hann hafði leigt og var kominn upp á Bláfellsháls, tæplega 30 kílómetrum ofan við Gullfoss. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er Kjalvegur ófær.

Maðurinn hafði samband við lögregluna á Suðurlandi um klukkan 6 í gærmorgun. Lögreglan leitaði eftir aðstoð Björgunarfélagsins. Á Facebooksíðu Eyvindar segir að hinn árrisuli ferðamaður hafi sagst vera á leið til Akureyrar og ákveðið að halda þessa leið þar sem GPS-tækið í bílnum hafi ráðlagt hana. Mildi hafi verið að hann hafi fest sig á þessum stað, því lítið símasamband sé þegar innar á hálsinn sé komið. Vel gekk að draga upp bílinn og ekkert amaði að ferðamanninum. Honum var snúið við og ráðlagt að fara greiðari leið til Akureyrar.  

Þetta var sextugasta útkall Eyvindarfélaga á þessu ári. Um 15 björgunarsveitarmenn eru virkir í Björgunarfélaginu Eyvindi. Það var stofnað árið 2000 við samruna björgunarsveitanna Fannars og Snækolls. Félagið hefur aðalstöðvar á Flúðum. Björgunarsveit þess starfar í öllum uppsveitum Árnessýslu og á hálendinu inn af þeim.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV