Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ferðamannagisting óheimil án leyfis íbúa

10.04.2016 - 20:10
Mynd: RÚV / RÚV
Óheimilt er að reka ferðamannagistingu í fjölbýlishúsum nema að fá til þess leyfi íbúa, samkvæmt dómi sem féll í vikunni. Hæstaréttarlögmaður segir dóminn fordæmisgefandi og að íbúar þurfi ekki að færa nein rök fyrir því, vilji þeir ekki slíka starfsemi.

Aðsókn í gistingu á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist mikið síðustu ár. Íbúar við Vatnsstíg í Skuggahverfinu í Reykjavík hafa verið mjög ósáttir við ónæðið sem af þessu hlýst og höfðuðu mál gegn eigendum þriggja íbúða við Vatnsstíg sem hafa verið leigðar út til ferðamanna. 

Hagsmunir íbúa til að njóta eigna sinna skertir

Geir Gunnlaugsson er formaður húsfélagsins sem lagði fram kæruna. „Við höfum alltaf talið að til þess að fara út í svona starfsemi, að leigja íbúðirnar út til ferðamanna, þá þyrfti að fá leyfi allra þeirra sem búa hér og eiga íbúðir hér í húsunum,“ segir Geir. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt að eigendum þriggja íbúða við Vatnsstíg sé óheimilt að reka gististað í húsinu. Í dómnum kom fram að hagsmunir íbúanna til að njóta eigna sinna í friði hafi verið skertir. Íbúarnir sögðu mikið um hávær samkvæmi, það væri varla hægt að búa í húsinu lengur og íbúðirnar hefðu fallið í verði.

„Sjálfsagt að það sé spurt um leyfi“

Geir segir mikið ónæði af því þegar skipt er um íbúa á tveggja til þriggja daga fresti. Ferðamenn komi gjarnan seint á kvöldin til landsins og fari snemma morguns með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa. „Þetta gjörbreytir þessu umhverfi og þetta á náttúrulega ekki aðeins við þessi fjölbýlishús heldur bara almennt. Og þess vegna er það sjálfsagt að það sé spurt um leyfi. Eru mikil læti hérna vegna til dæmis skemmtanahalds? Það gefur sig náttúrulega sjálft að ef að þú býrð hérna svona nálægt miðborginni þá er ósköp eðlilegt, við vitum það sjálf þegar við erum sjálf með túrista, þá förum við á veitingahús og við förum jafnvel á bari á eftir og svo þegar fólk kemur af veitingastöðum kannski tólf, eitt, tvö, þá er ekkert óeðlilegt að það heyrist í því,“ segir Geir. 

Gististarfsemin breyti eðli sambýlis í húsinu

Dómurinn er mjög afdráttarlaus. Það sé ótvítrætt að gististarfsemin hafi breytt eðli sambýlis í húsinu. Hún hafi í för með sér verulegt ónæði fyrir aðra eigendur og eigi því að vera háð samþykki þeirra. Vitnað er til 27. greinar laga um fjöleignarhús frá 1994 en þar segir:

Breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, eru háðar samþykki allra eigenda hússins.   

Íbúar þurfi engin sérstök rök fyrir neitun

Grímur Sigurðsson, lögmaður húsfélagsins, telur að dómurinn hafi fordæmisgildi. „Í öllum þeim tilvikum þar sem að eigendur íbúða í fjölbýlishúsi taka þá ákvörðun að hætta og fara í staðinn að reka þar leyfisskylda gististarfsemi. Þar á þessi dómur við og þá þurfa þeir eigendur að afla sér samþykkis annarra eigenda í húsinu við því að reka svoleiðis starfsemi þar. En þurfa eigendur að hafa einhver sérstök rök fyrir því að veita ekki leyfið? Í rauninni ekki. Í grunninn er það þannig að þeir sem hyggjast breyta hagnýtingu eignanna og fara að reka þar gististarfsemi þeir þurfa að afla samþykkis á húsfundi áður en þeir byrja starfsemina og þar er öllum íbúum frjálst að segja já eða nei eftir því hvað þeim þykir og þeir þurfa ekkert að rökstyðja það sérstaklega,“ segir Grímur.