Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ferðamaðurinn Malone kom OMAM á kortið

Mynd: Katy Winn/Invision/AP / Invision

Ferðamaðurinn Malone kom OMAM á kortið

30.04.2015 - 14:55

Höfundar

Velgengni lagsins „Little Talks“ í Bandaríkjunum, sem á endanum gerði Of Monsters and Men heimsfræga, má rekja til Menningarnæturtónleika sveitarinnar árið 2011. Þar var staddur bandarískur ferðamaður sem tók hljóðprufuna upp á síma og sendi vini sínum, dagskrárstjóra útvarpsstöðvar í Fíladelfíu.

Þessi örlagavaldur heitir Bobby Malone. „Hann ákvað greinilega að kíkja til Íslands og er þarna á röltinu og við erum að ‚sándtjékka‘ og tökum þetta lag, ‚Little Talks‘. Hann tekur upp símann og fer að taka okkur upp,“ segir Nanna Bryndís, söngkona hljómsveitarinnar. „Og sendir það góðvini sínum, John Allers sem er yfir útvarpsstöðinni 104,5 í Fíladelfíu – og hann byrjar að spila það þar,“ bætir söngvarinn Ragnar Þórhallsson við.

Lagið var í fyrstu aðeins spilað á sunnudögum, eins og venja var með nýja tónlist á þessari tilteknu útvarpsstöð. „Síðan byrja þeir að fá hringingar og fólk var að fíla þetta lag og vildi heyra meira. Þá fór þetta allt í einu bara í fulla spilun. Það er í rauninni fyrsta útvarpsspilunin sem við fáum í Ameríku,“ segir Nanna Bryndís.

Í kjölfarið tóku fleiri stöðvar að spila lagið og snjóboltinn rúllaði af stað með þeim afleiðingum að sveitin skrifaði undir plötusamning við stórfyrirtækið Universal Music Group nokkrum vikum síðar. Sem varð til þess að fyrsta plata sveitarinnar seldist í rúmlega tveimur milljónum eintaka.

Of Monsters and Men í tali og tónum
Farið verður yfir tónlistarferil hljómsveitarinnar Of Monsters and Men í tveggja tíma þætti á Rás 2 á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, klukkan 14:00 í tilefni af því að 8. júní sendir sveitin frá sér sína aðra breiðskífu. Viðtalið hér að ofan heyrðist fyrst í heimildarþáttaröðinni Árið er, íslensk dægurlagasaga í tali og tónum. Umsjónarmenn eru Ásgeir Eyþórsson og Gunnlaugur Jónsson.

Tengdar fréttir

Tónlist

Of Monsters and Men í tali og tónum

Tónlist

Heyrðu nýja lagið með Of Monsters and Men

Mynd með færslu
Tónlist

Siggi Sigurjóns syngur í myndbandi OMAM

Tónlist

Of Monsters and Men fær platínuplötu