Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ferðamaðurinn beið björgunar í 75 mínútur

30.09.2018 - 17:37
Mynd með færslu
Hansens-gat í Skjálfandafljóti Mynd: Sunna Valgerðardóttir
Ferðamaðurinn sem slasaðist við Skjálfandafljót í dag féll í Hansens-gat en ekki í Goðafoss eins og fyrst var haldið fram. Hansens-gat er við Geitafoss í Skjálfandafljóti en fallið er um átta metrar. Konur sem voru á ferð um svæðið tóku eftir tösku mannsins í klettum nærri gatinu og gerðu lögreglu viðvart þegar þær sáu hvar hann var að finna.

Maðurinn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur en hann er með áverka á höfði og hrygg. Hann var blautur og kaldur þegar komið var að honum en hann lá í gatinu í klukkutíma og korter með skerta meðvitund. Um hundrað viðbragðsaðilar voru kallaðir út.

Lögreglan á Norðurlandi eystra fékk tilkynningu á þriðja tímanum um manninn. Björgunarsveitir á Norðurlandi voru kallaðar út í kjölfarið og var viðbragðsáætlun vegna hópslyss virkjuð á svæðinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir
Hansens-gat við Geitafoss.
ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV