Ferðafélög tapa á rýmingum

20.08.2014 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Lokun hálendisins norðan Vatnajöklus hefur í för með sér mikið fjárhagslegt tap fyrir ferðaþjónustu á þessum slóðum. Nú er verið að loka skálum í Kverkfjöllum og við Öskju fyrir veturinn, tæpum mánuði fyrr en áætlað var.

Ferðatímabilið á hálendinu norðan Vatnajökuls var enn í fullum gangi og fjöldi ferðamanna þar, þegar ákveðið var í gær að loka svæðinu vegna jarðhræringanna í Bárðarbungu. Þarna eru gistiskálar í Kverkfjöllum, við Drekagil og í Herðubreiðarlindum og hafa þeir meira og minna verið fullbókaðir að undanförnu og áfram næstu vikur. Þeim verður nú lokað og fengu eigendurnir leyfi til að fara inneftir í morgun til þess. Hilmar Antonsson, formaður Ferðafélags Akueyrar, er í Drekaskála við Öskju. 

Hilmar segir að á milli þrjú og fjögur hundruð manns hafi átt bókað í Dreka næstu þrjár vikur, þannig að lokun þýði umtalsvert fjárhagstjón. Sömu sögu segir Þórhallur Þorsteinsson, starfsmaður Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, sem rekur Sigurðarskála í Kverkfjöllum.

Að minnsta kosti fimm ferðaþjónustufyrirtæki flytja ferðamenn í skoðunarferðir um hálendið norðan Vatnajökuls. Þessi fyrirtæki eru yfirleitt í ferðum fram undir miðjan september, sum lengur. Þannig að tímabilið endar allt að mánuði fyrr en venjulega, fari svo að lokanir standi svo lengi. Fjárhagslegt tjón þessara fyrirtækja er því mikið.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi