Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ferð til tannlæknis valdið vandræðum

16.06.2018 - 21:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi segir af og frá að hægt sé að finna vísbendingar um að hann hafi stutt H-listann í Vestmannaeyjum í sveitarstjórnarkosningunum í maí, eins og honum hefur verið borið á brýn. Fyrir tilviljun hafi tannlæknirinn hans, sem er systir oddvita H-listans, farið með utankjörfundaratkvæði hans til Eyja. 

Eftir að hafa kosið utan kjörfundar þurfti Páll að láta gera við brotna tönn. Þar hafi komið til tals að tannlæknirinn, sem er úr Eyjum, væri á leið þangað síðar sama dag. Bað Páll hana þá að koma atkvæð sínu og eiginkonu sinnar til skila. Annað hafi ekki legið að baki en nýta ferðina og spara sér frekara ómak af því að koma atkvæðunum til skila. Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Páli var vikið úr fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Eyjum fyrir skemmstu vegna „fordæmalausrar framgöngu" hans í aðdraganda kosninganna eins og formaður ráðsins orðaði það. Páll segir að sitt hlutverk sé að stuðla að sáttum. Í þættinum sagðist hann hreinlega ekki vita hvort þetta mál hefði veikt stöðu hans.

 

 

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV