Faðir Arons er tyrkneskur og þaðan kemur Can nafnið, en fáir vita að það er í raun borið fram „Tsjan“. „Ég er samt löngu hættur að nenna að leiðrétta fólk,“ segir Aron léttur. Hann segist hafa fengið fyrstu rappplötuna sína sjö ára gamall í gjöf frá pabba sínum, en sú var á tyrknesku. Hann hlustaði sem barn mikið á tyrkneskt rapp og diskópopp ýmis konar í bland við Led Zeppelin og rokktónlist sem að móðir hans hlustaði á. „Ég held ég hafi fengið ótrúlega mikið frá Tyrklandi í tónlistina sem ég geri, eins og melódíur til dæmis, og raddslaufur sem hljóma eins og bænaköll.“