Fer líklega aldrei úr Grafarvoginum

Mynd: Aron Can / Aron Can

Fer líklega aldrei úr Grafarvoginum

28.01.2018 - 13:19

Höfundar

„Ég hef alltaf verið í Grafarvoginum, fer líklega aldrei þaðan. Er bara í kjallaranum hjá mömmu,“ segir ofurpoppungstirnið Aron Can sem var gestur hjá Atla Má og Sölku Sól í Rabbabara. Þar ræddi hann meðal annars ævintýralega hraða ferð sína upp á stjörnuhimininn og Smiths-tímabil sem hann gekk í gegnum sem (yngri) unglingur.

Faðir Arons er tyrkneskur og þaðan kemur Can nafnið, en fáir vita að það er í raun borið fram „Tsjan“. „Ég er samt löngu hættur að nenna að leiðrétta fólk,“ segir Aron léttur. Hann segist hafa fengið fyrstu rappplötuna sína sjö ára gamall í gjöf frá pabba sínum, en sú var á tyrknesku. Hann hlustaði sem barn mikið á tyrkneskt rapp og diskópopp ýmis konar í bland við Led Zeppelin og rokktónlist sem að móðir hans hlustaði á. „Ég held ég hafi fengið ótrúlega mikið frá Tyrklandi í tónlistina sem ég geri, eins og melódíur til dæmis, og raddslaufur sem hljóma eins og bænaköll.“

Lagið sem vakti athygli Arons Rafns og Jóns Bjarna, samstarfsmanna Arons Cans í tónlistinni.

Aron segist hafa byrjað að semja texta tíu ára gamall en fyrst tekið eitthvað upp þegar hann var 14 ára. „Ég kynntist strák sem heitir Benjamín og við gerðum mikið af tónlist saman, ég er með tvær heilar plötur inn á tölvunni. Það er nánast hægt að heyra þar milli laga hvernig ég fer alltaf að rappa minna og syngja og nota röddina meira.“ Hann kom fyrst fram opinberlega í undankeppni Samfés í Víkurskóla sem hann vann með frumsömdu lagi. Þó hann hafi ekki sigrað eða lent í sæti á aðalkeppni Samfés var þetta mikilvæg reynsla fyrir hann. „Eftir þessa keppni þá ætlaði ég bara að gera þetta, það kveikti í mér vilja. Að gera þetta virkilega, hætta í boltanum og bara fara að gera tónlist,“ segir Aron.

Lagið „Þekkir stráginn“ sló fyrst í gegn á Twitter.

Taktsmiðirnir Aron Rafn og Jón Bjarni Þórðarsson eru ábyrgir fyrir draumkenndum trap-hljómi laga Arons en þeir settu sig einfaldlega í samband við hann á Facebook. „Ég og Benni settum lag á Youtube sem heitir „Klink“, þá sendir Aron mér skilaboð:, „Jó, vantar þig beats?““ Stuttu síðar er Aron staddur í hljóðveri strákanna klukkan þrjú um nótt þar sem ýmislegt fær að flakka, meðal annars er tekin upp söngur Arons við einn takt. „Svo daginn eftir sendir hann mér það til baka og við  póstum við því á Youtube. Það var „Þekkir stráginn“. Þetta var bara eitthvað lag sem ég ætlaði ekkert að gera og varð viral á Twitter.“

Þegar myndbandið Enginn mórall/grunaður var frumsýnt á Prikinu var öllum viðstöddum ljóst að ný stjarna var fædd.

Lagið varð mjög fljótt vinsælt og í kjölfarið kom svo risaslagarinn „Enginn mórall“ og svo blandspólan Þekkir stráginn, allt árið 2016 en í lok árs var „Enginn Mórall“ mest streymda lag landsins á Spotify, með yfir milljón spilanir. Í kjölfarið spilaði Aron svo á öllum helstu tónlistarhátíðum landsins og víðar, en síðan kom fyrsta alvöru breiðskífan, ÍNÓTT, út sumarið 2017. Lagið „Fullir vasar“ tröllreið útvarpsstöðum og stendur í tæpum tveimur milljónum hlustana þegar þetta er skrifað. Aron Can segir að margt hafi breyst á því ári sem leið á milli platna og þess vegna sé hljómur þeirra ólíkur. „Þegar ég var að gera Þekkir stráginn var ég hættur í sambandi en byrjaður að elska lífið aftur og vera einn. Svo þegar ég er að gera ÍNÓTT, þá var ég aftur orðinn ástfanginn,“ segir Aron og bætir við að samstarf hans við takttvíeykið hafi þróast á þessum tíma, það hafi verið svotil nýhafið á fyrri plötunni.

Mynd: Vikan með Gísla Marteini / RÚV
Aron Can flytur titillag plötunnar ÍNÓTT í Vikunni með Gísla Marteini.

Aðspurður um hvaða tónlist hafi mótað hann kann að koma á óvart að hann nefni bresku indíhljómsveitina The Smiths. „Þetta var í 8. bekk og ég var ekki beint þunglyndur, en samt að ganga í gegnum eitthvað smá melódramatískt tímabil. Í jólafríinu þegar allt var ógeðslega dimmt horfði ég á bíómyndina The Perks of being a Wallflower næstum því á hverjum degi, þar kynntist ég Smiths.“

Þá nefnir Aron einnig plötuna Trilogy með hinum kanadíska Weeknd. „Held það hafi verið sumarið fyrir áttunda bekk, þetta var svo tilfinningarík plata og ég elskaði öll lögin. Ég var alltaf með hana í botni í eyrunum þegar ég var að hjóla upp í Egilshöll,“ segir Aron. Þá kemur það ekki á óvart að Aron sé aðdáandi tilfinningasöngrapparans Drake og trap-goðsins Future. „Uppáhalds Future-lögin mín eru samt rólegu ástarlögin hans.“

Eitt af uppáhalds lögum Arons með bandaríska rapparanum Future.

Að lokum segist Aron hafa verið að vinna í nýju efni þó óvíst sé hvenær og ef það komi út. „ÍNÓTT var geðveikt stórt verkefni, þung plata sem maður þurfti að hugsa í í gegn, konsept-plata. Síðan áður en hún kom út höfum við verið dálítið að leika okkur, hoppa á einhver bít og gera bara eitthvað skemmtilegt við það. Öll lögin eru ekki eitthvað geðveikt peppuð, en samt meira flipp og gleði.“

Atli Már Steinarsson og Salka Sól Hjálmarsdóttir ræddu við Aron Can í Rabbabara. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Aron fer upp á við en angistin læsir klónum

Tónlist

Aron Can flutti titillag nýrrar plötu í beinni

Tónlist

Fékk leyfi mömmu til að spila á balli

Tónlist

Einlæg og tilfinningahlaðin – frábær plata